Lygileg atburðarás 5. apríl

05.04.2016 - 16:15
Mynd með færslu
 Mynd: Hilmar Kári Hallbjörnsson  -  RÚV
Atburðarásin frá því í morgun hefur verið lygileg. Hún hófst á fundi Bjarna Benediktssonar, fjármálaráðherra, og Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, forsætisráðherra, í morgun og síðasti snúningurinn var sú yfirlýsing þingflokks Framsóknarflokksins að Sigmundur Davíð myndi hætta sem forsætisráðherra og Sigurður Ingi Jóhannsson, landbúnaðarráðherra, tæki við af honum.

Í gær var ákveðið að fresta bæði þingfundi og fundi ríkisstjórnarinnar sem vera átti í dag. Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, sneri heim frá Bandaríkjunum eftir að hafa verið þar veðurtepptur. Hann og Sigmundur Davíð áttu fund klukkan níu í morgun sem lauk tveimur tímum seinna. Eftir fundinn setti Sigmundur inn þessa færslu á Facebook.

Nú í morgun átti ég mjög góðan fund með Bjarna Benediktssyni, formanni Sjálfstæðisflokksins. Við ræddum árangur ríkisstj...

Posted by Sigmundur Davíð Gunnlaugsson on 5. apríl 2016

Í framhaldinu fór Sigmundur Davíð á fund forseta Íslands. Þar óskaði hann eftir heimild til að rjúfa þing og boða til kosninga.

Eftir að Sigmundur fór af fundinum ræddi Ólafur Ragnar við blaðamenn þar sem hann upplýsti að hann gæti ekki fallist á þessa tillögu Sigmundar án þess að ræða við formann Sjálfstæðisflokksins.

Sigmundur fór síðan í stjórnarráðið og svo á fund þingflokks Framsóknarflokksins. Hann vildi lítið tjá sig um framhaldið við fjölmiðla og taldi betra að vitna í Facebook-færslu sína en aðra heimildarmenn.

Allra augu beindust því að Sjálfstæðisflokknum. Þingflokkurinn fundaði í Valhöll og sá fundur stóð í þrjú korter. Þingmenn og ráðherrar vörðust allra fregna en Bjarni Benediktsson, formaður flokksins, sagði á eftir að hann færi á Bessastaði til að ræða við forsetann.

Á meðan Bjarni keyrði á Bessastaði kom þingflokkur Framsóknarflokksins út eftir rúmlega tveggja klukkustunda fund í þinghúsinu. Tillaga þeirra var sú að Sigmundur Davíð hætti og Sigurður Ingi Jóhannsson, landbúnaðarráðherra, yrði forsætisráðherra í hans stað.

Og þegar forsetinn og fjármálaráðherrann höfðu komið sér fyrir á Bessastöðum birtist stutt tilkynning á vef forsætisráðuneytisins. Þar kom fram að Sigmundur Davíð hefði ekki borið upp formlega tillögu um þingrof eða kynnt slíka tillögu fyrir Ólafi Ragnari.

Mynd með færslu
 Mynd: Hilmar Kári Hallbjörnsson  -  RÚV

Eftir fund fjármálaráðherra og forsetans ræddi Bjarni Benediktsson við fjölmiðla. Þar sagðist hann ætla að ræða við Sigurð Inga um framhaldið. Hann sagðist eiga von á niðurstöðu úr þeim viðræðum á næstu dögum.

Það var síðan um kvöldið sem Ólafur Ragnar skýrði fund sinn og Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar á Bessastöðum um morgunin. Þar sagði hann skýrt að ekki væri hægt að nota forsetaembættið í einhverjum aflraunum í viðræðum forystumanna stjórnmálaflokkanna.

Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV