Lula verður ráðherra í Brasilíu

15.03.2016 - 04:43
epa05203042 Former Brazilian President Luiz Inacio Lula da Silva leaves a breakfeast meeting in Brasilia, Brazil, 09 March 2016. Lula on 08 March presented an appeal to the Supreme Court to suspend the corruption investigations against him until a
 Mynd: EPA  -  EFE
Lula, Luiz Inacio Lula da Silva, fyrrverandi Brasilíuforseti, hefur fallist á að verða ráðherra í ríkisstjórn eftirmanns síns, Dilmu Rousseff. BBC greinir frá þessu. Haft er eftir félögum í Verkamannaflokknum, stærsta flokknum í samsteypustjórninni sem nú er við völd í Brasilíu, að skipan hans muni styrkja stjórnina, sem situr undir sívaxandi gagnrýni. Þessi skipan mála gerir þó meira til að styrkja Lula sjálfan.

Hann var handtekinn í síðustu viku og yfirheyrður í sambandi við rannsókn á peningaþvætti í tengslum við umfangsmikið spillingarmál, þar sem áhrifafólk innan Verkamannaflokksins og ríkisolíufélagið Petrobras eru í aðalhlutverkum. Greint var frá því fyrir nokkrum dögum að Lula byðist að verða ráðherra án ráðuneytis ef hann kærði sig um, og fá þannig nokkra vernd gegn laganna vörðum, sem vinna að rannsókn málsins. Einungis hæstiréttur getur réttað yfir ráðherrum. Samherjar forsetans fyrrverandi fullyrða að það sé eini dómstóllinn þar sem hann muni fá réttláta og óvilhalla málsmeðferð.

Sjálfur segist Lula ekkert hafa gert rangt og að allar fullyrðingar um hið gagnstæða séu af pólitískum rótum runnar. Hann nýtur enn mikilli vinsælda meðal landa sinna, öfugt við Rousseff, sem hann valdi sjálfur sem arftaka sinn í flokknum þegar hann lét af embætti 2010. Hún á mjög í vök að verjast um þessar mundir og kröfur um afsögn hennar verða æ háværari. Á sunnudag flykktust milljónir Brasilíumanna út á götur og torg í ríflega 400 borgum og bæjum og kröfðust afsagnar hennar vegna spillingar og óstjórnar í efnahagsmálum.

Rousseff aftekur með öllu að segja af sér en vaxandi líkur eru taldar á að stjórnarandstaðan leggi fram formlega kæru á hendur henni fyrir embættisafglöp. Óstaðfestar heimildir herma að eitt meginverkefni Lulas verði að sannfæra þingmenn samstarfsflokka Verkamannaflokksins í ríkisstjórninni um að verja hana gegn slíkri kæru.