Lukka að þetta gerist um miðnætti

23.07.2014 - 09:17
Mynd með færslu
Rúmlega kílómetra breið spilda féll úr fjalli við Öskju í fyrrinótt. Hluti skriðunnar lenti ofan í Víti. Nokkrar 50 metra háar flóðbylgjur skullu á klettunum umhverfis vatnið. Ármann Höskuldsson jarðvísindamaður var staddur á svæðinu með hópi af nemendum þegar atvikið átti sér stað.

Ármann segir mikla mildi að enginn hafi verið mjög nærri þegar skriðan féll. 

„Það eru fjórar flóðbylgjur sem ná upp að fimmtíu metrum, svo er röð af smærri flóðbylgjum á meðan það er verið að draga úr áhrifunum af skriðunni í vatninu. Lukkan er að þetta gerist þarna um miðnætti og það er enginn innfrá," segir hann. „Hefði þetta gerst á miðjum degi þá er ekki að spyrja að leikslokum því það er mikill fjöldi af fólki á þessum tíma inni við vatnið á þeim tíma." 

Ármann var á svæðinu með hópi af nemendum í kennsluferð við mælingar þegar fréttir koma af atburðinum.

„Þá förum við uppeftir til þess að skoða ummerki og átta okkur betur á því hvað hefur gerst. Hluti fjallsins í suðausturhorni vatnsins fer af stað, svona rúmlega eins kílómetra breið spilda sem hrynur úr fjallinu, sem gerir á bilinu 50 til 60 milljón rúmmetra," segir hann. „Þetta var gríðarlega mikil skriða sem fellur niður og hluti hennar fer út í vatnið. Og við það myndast flóðbylgja í vatninu, gríðarlega mikil flóðbylgja, sem er að jafnaði í kring um 50 metra há og svo gusast hún upp þegar hún skellur á veggjunum sem eru norðanmegin."

Hann lýsir atburðinum í vatninu eins og þegar þungum hlut er hent í barmafullt baðkar, nokkrar stórar flóðbylgjur sem skella á veggjunum og svo margar eftir það sem ýta vatninu fram og til baka.

Vísindaráð Almannavarna kom saman nú klukkan níu til að meta stöðuna og hvort hætta sé á frekari skriðuföllum. Gönguleiðinni að Öskjuvatni hefur verið lokað. 

sunnav@ruv.is