Lögregluvakt verður við Reynisfjöru

10.02.2016 - 18:30
Vilborg Anna Björnsdóttir leiðsögumaður myndaði öldurót í Reynisfjöru í febrúar 2015.
 Mynd: Vilborg Anna Björnsdóttir
Ólöf Nordal, innanríkisráðherra, og Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, hafa í samráði við lögregluna á Suðurlandi ákveðið að frá og með morgundeginum verði lögregluvakt við Reynisfjöru.

Ákvörðunina má rekja til hörmulegs atviks í fjörunni í dag, þegar kínverskur ferðamaður lét lífið eftir að alda hreif hann og bar með sér 550 metra út í sjó.

Samkvæmt fréttatilkynningu frá atvinnuvegaráðuneyti og innanríkisráðuneyti verður sömuleiðis gerð áhættugreining á svæðinu í samræmi við tillögur nefndar sem innanríkisráðherra skipaði á síðasta ári til að gera tillögur um öryggi ferðamanna. 

Í kjölfar niðurstöðu áhættugreiningarinnar verður tekin ákvörðun um frekari aðgerðir til að tryggja öryggi ferðamanna sem fara um svæðið. Þá er fyrirhugað að gera sambærilega áhættugreiningu fyrir aðra fjölsótta ferðamannastaði á Íslandi, að því er fram kemur í fréttatilkynningunni frá ráðuneytinu. 

Þá segir að á undanförnum vikum hafi, á vettvangi Stjórnstöðvar ferðamála, verið unnið að tillögum að aðgerðum sem nauðsynlegt sé að grípa til þegar á þessu ári og lúta almennt að öryggi ferðamanna. Til stendur að ræða tillögurnar á næsta fundi Stjórnstöðvarinnar í lok febrúar.