Lögregluvakt í Reynisfjöru neyðarráðstöfun

10.02.2016 - 22:07
Mjög brýnt er að vinnu við að auka öryggi ferðamanna verði hraðað, segir Víðir Reynisson lögreglufulltrúi á Suðurlandi. Hann segir boðaða lögregluvakt í Reynisfjöru neyðarráðstöfun og hefur lögreglan óskað eftir sérstöku framlagi vegna bráðaviðbragða við banaslysinu þar í dag.

Fertugur kínverskur ferðamaður lést í morgun eftir að hafa fallið í sjóinn við Reynisfjöru í Mýrdal í dag. Í tilkynningu í kvöld segir að rannsókn lögreglunnar á Suðurlandi hafi leitt í ljós að maðurinn stóð á 50 sentimetra háum stuðlabergssteini, í nokkurra metra fjarlægð frá sjálfu stuðlaberginu í Reynisfjalli. Maðurinn var að taka ljósmyndir. Úthafsalda braut á steininum og greip manninn sem sogaðist út með henni og drukknaði.

Um miðjan dag voru ferðamenn aftur komnir í Reynisfjöru. Á sjöunda tímanum var svo tilkynnt að lögregluvakt yrði við fjöruna frá og með morgundeginum. Lögreglan er hins vegar fáliðuð og verkið því ekki einfalt.

Þetta verður strembið. Við ætlum að gefa okkur tvær vikur í að vinna aðgerðaáætlun – gera hættumat og aðgerðaáætlun. Og við reiknum með því að geta mannað þetta í tvær vikur. En eftir það þá þurfum við að finna aðra lausn. Þetta er bráðabirgðalausn og neyðarlausn í sjálfu sér.

Segir Víðir Reynisson lögreglufulltrúi á Suðurlandi.  Vinna hafi þegar verið í gangi til að efla öryggi ferðamanna sem Stjórnstöð ferðamála, stýrihópur um öryggismál og fleiri hafi komið að. Þá sé öryggi ferðamanna ekki eingöngu á hendi lögreglunnar, heldur samvinnuverkefni fjölmargra. 

Það er mjög brýnt að við hröðum allri þessari vinnu. Það er febrúar. Það er mikið af ferðamönnum á landinu núna – miklu meira kannski heldur en við erum vön að sjá. Og spár fyrir sumarið gera náttúrulegar áð fyrir ennþá fleiri ferðamönnum. Þannig að við verðum að grípa strax til aðgerða. Sumt er hægt að gera strax  eins og að auka eftirlit, auka löggæslu, fjölga landvörðum og vera með fólk á þeim stöðum sem ferðamennirnir eru. Síðan er annað sem tekur lengri tíma, kallar á meiri undirbúning og skipulag, eins og stígar og tröppur og annað slíkt sem eykur öryggi og aðgengi; uppsetning skilta og leiðbeininga.

Búið að setja upp lista með stöðum sem skoða þarf sérstaklega og Reynisfjara er efst á listanum yfir hættulega staði. En liggur fyrir loforð frá stjörnvöldum um aukið fjármagn?

Nei, það er hluti af þessari vinnu sem er í gangi. Greining á því hvað þessi viðbrögð kosta.