Lögreglumenn leita til innanríkisráðherra

12.01.2016 - 19:03
Mynd með færslu
 Mynd: rúv
Ólga innan embættis lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu vegna starfshátta Sigríðar Bjarkar Guðjónsdóttur lögreglustjóra hefur nú bæði ratað á borð innanríkisráðherra og Landssambands lögreglumanna. Formaður Landssambandsins vill að ráðherra hlutist til vegna stöðunnar.

Samkvæmt skýrslu vinnustaðasálfræðings er samskiptavandi innan embættis lögreglu höfuðborgarsvæðisins. Í skýrslunni kom fram að ráðast þyrfti tafarlaust í aðgerðir til að taka á vandanum. Lögreglan réði nýlega tvo sálfræðinga til starfa sem eiga að fylgja eftir áðurnefndri skýrslu, en ekki fást upplýsingar frá embættinu um hvernig vinnu þeirra miðar.

 

Fundir haldnir í Innanríkisráðuneytinu

Sigríður Björk hefur sjálf sagt að hún kannist ekki við óánægju innan embættisins. Lögreglumenn sem fréttastofa hefur rætt við undanfarið, tala um ófremdarástand sem farið sé farið að bitna á störfum lögreglunnar. 

Starfsmenn lögreglunnar hafa leitað til innanríkisráðherra vegna starfshátta Sigríðar Bjarkar, en í skriflegu svari ráðuneytisins til fréttastofu segir að tveir fundir hafi verið haldnir í ráðuneytinu, með einum starfsmanni lögregluembættisins og með fimm starfsmönnum þess. Þá hafi sömuleiðis eitt formlegt erindi borist ráðuneytinu þar sem gerðar eru athugasemdir vegna samskipta við lögreglustjórann.

Fjórtán lögreglumenn kvartað til landssambandsins

Snorri Magnússon, formaður Landssambands lögreglumanna, segir að til sambandsins hafi leitað fjórtán lögreglumenn undanfarnar vikur vegna ástandsins á lögreglustöðinni við Hverfisgötu.

„Það eru vinnubrögð hennar, framkoma og fleira sem hefur komið hingað inn á borð,“ segir Snorri í samtali við fréttastofu. Hann vill ekki tjá sig um innihald erindanna en segir að til sambandsins hafi leitað lögreglumenn af báðum kynjum.

Vill að ráðherra beiti sér í málinu

Hann segir nokkra lögreglumenn hafa rætt við Sigríði Björk sjálfa, en þeir hafi verið ósáttir við viðbrögð hennar. Málið verður tekið fyrir á stjórnarfundi landssambandsins á morgun.

„Í kjölfarið mun ég væntanlega leggja það til við stjórn sambandsins að við felum ráðuneytinu að skoða þetta mál frekar, því að það er búinn að vera orðrómur um þetta í alllangan tíma. Miðað við þau erindi sem hingað hafa komið, þau samtöl sem að hér hafa átt sér stað, þá er full ástæða til að skoða málið frekar, og ráðuneytið þá hlutist til um það,“ segir formaður Landssambands lögreglumanna.

Lögreglufélagið lýsir yfir stuðningi við lögreglustjóra

Allt annað hljóð er í Lögreglufélagi Reykjavíkur. Guðmundur Ingi Rúnarsson, formaður þess, kannast ekki við óánægju lögreglumanna með starfshætti lögreglustjórans eða deilur innan embættisins, umfram það sem hefur verið fjallað um í fjölmiðlum, og segir stjórn félagsins lýsa yfir fullum stuðningi við Sigríði Björk í skriflegu svari við fyrirspurn fréttastofu.

Fréttastofa leitaði viðbragða Sigríðar Bjarkar í dag, sem sá sér ekki fært að veita viðtal vegna málsins. Í skriflegu svari hennar við fyrirspurn fréttastofu segir hún: „LRH (Lögregla höfuðborgarsvæðisins) er fjölmennur vinnustaður með að jafnaði 360-380 starfsmenn. Það standa yfir breytingar sem eðli máls samkvæmt hugnast ekki öllum. Við bætast mál sem hafa verið í fjölmiðlum undanfarna daga og vikur og ráðningarferli í yfirmannastöður. Ég tel ekkert óeðlilegt þarna á ferð og vænti þess að heyra frá Landssambandi lögreglumanna nánar um hvað málið varðar.“