Lögreglan rannsakar vettvang brunans

08.03.2016 - 08:15
Mynd með færslu
 Mynd: Tryggvi Aðalbjörnsson  -  RÚV
Lögreglan hefur tekið yfir stjórn vettvangs bruna á iðnaðarhúsnæði við Grettisgötu. Slökkvistörfum lauk klukkan rúmlega þrjú í nótt, segir Árni Oddsson varðstjóri hjá slökkviliðinu. Slökkviliðið er að klára sín verkefni á vettvangi og rannsóknarlögreglumenn væntanlegir á staðinn til að kanna eldsupptök.

Um 100 manns tóku þátt í aðgerðum slökkviliðs- og lögreglu við Grettisgötu en engir slökkviliðsmenn voru sendir inn í húsið. Það er byggt úr strengjasteypu og því mikil hætta á að það hrynji. Mikill viðbúnaður var í gærkvöld, götum í nágrenninu var lokað og íbúar við Grettisgötu ákváðu margir að flýja íbúðir sínar vegna sterkrar gúmmílyktar.