Lögreglan á að hindra kosningar í Katalóníu

12.09.2017 - 20:58
epa06198634 A handout photo made available by Catalan National Assembly (ANC) shows thousands of people carrying giant Catalan Flag and a banner reading 'Referendum is Democracy' as they gather during the National Day of Catalonia (Diada)
 Mynd: EPA-EFE  -  CATALAN NATIONAL ASSEMBLY
Saksóknari Katalóníu hefur skipað yfirmönnum löggæslu í Katalóníu að stöðva og hindra allan undirbúning og framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslu sem fram á að fara í héraðinu eftir tæpar þrjár vikur.

Ríkissaksóknarinn fundaði í dag með yfirmönnum ríkislögreglunnar, borgarvarðarins og lögreglu Katalóníu, en þessar þrjár stofnanir sjá um að halda uppi lögum og reglu í héraðinu. Eftir fundinn sendi hann frá sér yfirlýsingu þar sem löggæslunni er fyrirskipað að gera allt til að hindra að kosningarnar fari fram þann 1. október næstkomandi. Í skipuninni kemur fram að laganna vörðum beri að gera kjörkassa upptæka og öll önnur tæki og tól sem notuð eru við kosningar; handbækur, tölvur, prentara, kynningarefni og annað. Saksóknarinn minnir á að lögreglunni sé skylt að hlíta fyrirmælum saksóknara, þegar afbrot eru rannsökuð og sakamenn dregnir fyrir dómstóla.

Enginn þeirra forsvarsmanna lögreglunnar sem sótti fundinn hefur viljað tjá sig um málið.

Í yfirlýsingu saksóknara er ennfremur bent á að hver sá sem misfari með opinbert fé eigi yfir höfði sér allt að átta ára fangelsi.