Logi lyfti lóðum á meðan útsendingu stóð

20.01.2016 - 08:35
Logi Geirsson, fyrrverandi landsliðsmaður í handbolta, fór mikinn í EM-stofunni í gærkvöld þegar Ísland fékk skell gegn Króötum á Evrópumótinu í Póllandi. Logi hefur vakið mikla athygli fyrir frammistöðu sína sem álitsgjafi – gullbindi sem hann skartaði í leiknum gegn Hvíta-Rússlandi stal senunni og fyrir leikinn gegn Króötum lyfti landsmaðurinn fyrrverandi lóðum í myndverinu enda í níðþröngum pólóbol.

Þóra Arnórsdóttir, sem stjórnaði EM-stofunni, birti myndskeið af Loga á Twitter-síðu sinni og sagði að þar leggðu menn sig fram við undirbúninginn.

Ummæli Loga í hálfleik í leiknum gegn Króötum vöktu einnig óskipta athygli en þar gerði hann athugasemdir við leikhlé íslenska liðsins – landsliðsþjálfarinn þyrfti að slá í borðið, slá einhvern utan undir og spyrja hvað hann væri að gera. Hægt er að sjá myndskeið af því hér að ofan.

Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV