Loðnuleit lokið og ekki tilefni til bjartsýni

16.02.2016 - 11:48
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV  -  Björgvin Kolbeinsson
Árni Friðriksson, rannsóknaskip Hafrannsóknastofnunar, liggur í vari á Arnarfirði. Loðnuleit lauk um helgina og verið er að fara yfir gögnin úr leitinni. Birkir Bárðarson leiðangursstjóri á Árna Friðrikssyni vill ekki tjá sig að svo stöddu um það hvort að útgefið aflamark byggt á fyrri mælingu standi. Útgerðarmenn eru vissir um að ekki sé tilefni til þess að auka aflamarkið miðað við þær fregnir sem þeir fá frá skipum á veiðum.

„Við erum með mælingar úr tveimur skipum og það er verið að samkeyra upplýsingarnar. Veður hefur verið erfitt til mælinga,“ segir Birkir.  Mælingin sem gengið er út frá var gerð í janúar við mjög góðar aðstæður. Árni Friðriksson náði þá mælingu með landgrunnsbrúninni frá Grænlandssundi austur að Bakkaflóadjúpi í góðu veðri og mat veiðistofninn um 675 þúsund tonn. 

Birkir segir að það sé ekki óvenjulegt að það sjáist mikið af loðnu hér og þar og tilkynnt  um það. „675.000 tonn er vissulega þó nokkuð magn af loðnu en það gefur ekki tilefni til þess að gefa út mikinn kvóta miðað við nýjar aflamarksreglur. Í góðu ári má segja að yfir 1.000.000 tonn sé viðmið sem er  hægt að ganga útfrá að gefi af sér það sem kallað er góð vertíð.“

Nýja reglan byggir á því að skilja eftir 150 þúsund tonn til hrygningar með 95% líkum. Aflareglan tekur tillit til óvissumats útreikninganna, vaxtar og náttúrulegrar dánartölu loðnu, auk þess sem afrán þorsks, ýsu og ufsa er metið. Afrán hvala er ekki tekið með í reiknilíkönin. Í samræmi við ofangreinda aflareglu var heildaraflamark á vertíðinni 2015-2016 ákvarðað 173 þúsund tonn að meðtöldum þeim afla sem búið var að veiða þegar mælt var.  Af þeim 173.000 tonnum sem gefin voru út féllu 100.000 í hlut íslenskra útgerða. Ef eldri aflaregla hefði enn verið í gildi hefði útgefinn kvóti orðið um 250.000 tonn.

Nokkrar íslenskar útgerðir hafa sent sín skip til veiða og norsk skip hafa verið á veiðum og landað rúmlega 6.000 tonnum í Neskaupstað og tæpum 7.000 tonnum á Fáskrúðsfirði.