Litu út fyrir að vera ráðalausir

08.09.2013 - 09:34
Mynd með færslu
Magnús Þór Jónsson, skólastjóri á Rifi, segist hræddur um að fjaran á staðnum sé full af dauðum grindhvölum. Hópur grindhvala var í höfninni frá klukkan sex í gærkvöld.

Í samtali við fréttastofu RÚV segir hann að fjöldi íbúa hafi drifið að, þrátt fyrir vonskuveður. Íbúar áætla að vel yfir 100 dýr hafi verið á sveimi í fjörunni og rétt fyrir utan hana en skyggni var arfaslakt, mikill öldugangur og myrkur.

Magnús Þór segist ekki vita til þess að viðlíka hópur hvala hafi synt inn í höfnina á Rifi síðan 1982, þegar um 50 hvalir komu í hóp að landi. Hann segir að erfitt sé að útskýra hvers vegna dýrin koma að landi. Það hafi litið út fyrir að þau væru ráðalaus og kunni ekki að koma sér út úr aðstæðunum. Hann segir að mjög skrýtið hafi verið að horfa á dýrin í gær. Eftir að hvalina rak á land á Rifi skáru heimamenn þá.