Liggur ekki á að selja Landsbankann

19.01.2016 - 15:33
Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot  -  RÚV
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra segir að það liggi ekki á að selja hlut ríkisins í Landsbankanum fyrr en það verði æskilegt fyrir eigandann. Þetta kom fram í máli forsætisráðherra á Alþingi sem svar við fyrirspurn Helga Hjörvar þingflokksformanns Samfylkingarinnar.

Helgi vitnaði í orð flokksbróður ráðherra, Frosta Sigurjónssonar, sem hefur lýst yfir verulegum efasemdum með þá sölu. Forsætisráðherra segir slíka sölu fara í ákveðið ferli, heimildin sé til staðar, og treysta verði þar til gerðum stofnunum fyrir verkefninu.

Sigmundur Davíð minnti á að heimild hefði verið fyrir því selja hlut ríkisins í bankanum frá því á síðasta kjörtímabili. Það sé hins vegar ekki ríkisstjórnin eða Alþingi beint sem fari með þann hlut, heldur Bankasýsla ríkisins. „Ég efast ekki um að Bankasýslan meti það hvenær og með hvaða hætti æskilegt kann að vera að selja hlut í bankanum. Menn lögðust á eitt hér á sínum tíma, stjórnarandstaðan, við að verja Bankasýsluna og töldu mikilvægt að halda ób reyttu fyrirkomulagi hvað það varðaði og ég trúi ekki öðru en að háttvirtur þingmaður telji að Bankasýslunni sé treystandi fyrir þessu verkefni.“

Helgi ítrekaði spurninguna um hvort skynsamleg sé að selja hlut ríkisins í bankanum á þessu ári. Sigmundur Davíð svarði því ekki beint en ítrekaði að sama ferli færi í gang og áður. Hann stjórnaði því ferli ekki.

Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir
Fréttastofa RÚV