Líflína fyrir Fáfni

01.03.2016 - 11:46
Mynd með færslu
 Mynd: Fáfnir Offshore  -  Rúv
Samningar hafa tekist milli Fáfnis Offshore og Sýslumannsins á Svalbarða um leigu á skipinu Polarsyssel í níu mánuði á ári. Stjórnarformaður Fáfnis segir þetta líflínu fyrir félagið. Guðmundur Hilmarsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Fáfnis Offshore.

Samningurinn gerir ráð fyrir minniháttar lagfæringum á skipinu Polarsyssel og samkvæmt upplýsingum frá fyrirtækinu eru framkvæmdir að hefjast í Leirvík en  gert er ráð fyrir að skipið verði tilbúið um miðjan mánuðinn. Samkvæmt fyrri samningi Fáfnis Offshore og Sýslumannsins á Svalbarða leigði sýslumaðurinn  Polarsyssel í 6 mánuði á ári, en með nýja samningnum er fyrirtækinu tryggðar tekjur í 9 mánuði á ári, en ekki er mikil eftirspurn eftir skipum af þessu tagi eins og er. Jóhannes Hauksson stjórnarformaður Fáfnis Offshore sagði í samtali við fréttastofuna að samningurinn væri líflína fyrir félagið.

Fáfnir Offshore hefur einnig samið skipasmíðafyrirtækið við Havyard um að koma áhættunni af smíði nýs skips, Fafnir Viking, yfir í sérstakt félag ótengt rekstri Fáfnis Offshore. Fáfnir Offshore greiðir í Havyard um 188 milljónir króna í tengslum við það.  Báðir aðilar ætla að vinna að því að finna ný verkefni fyrir nýja skipið, meðal annars er verið að skoða að breyta því í þjónustuskip fyrir vindmyllur

Búið er að ráð nýjan framkvæmdastjóra Fáfnis Offshore, sá heitir Guðmundur Hilmarsson og er skipaverkfræðingur. Hann býr og starfar í Noregi og var starfsmaður Havyard, en að sögn Jóhannesar Haukssonar eru engin tengsl á milli þess og samningsins við Havyard. 

Í tilkynningu frá Fáfni Offshore segir að engir íslenskir lífeyrissjóðir séu hluthafar í félaginu, hins vegar séu fagfjárfestasjóðirnir Akur, sem stýrt er af Íslandssjóðum og Horn II sem stýrt er af Landsbréfum hluthafar.  Fáfnir Offshore sé ein af nokkrum fjárfestingum sem sjóðirnir hafa fjárfest í.  

Til glöggvunar má bæta því við að íslenskir lífeyrissjóðir hafa lagt fé í bæði Akur og Horn II.