Líður að lokun Guantanamo

23.02.2016 - 04:08
epa03682731 (FILE) A file photograph showing men dressed in orange coveralls, alleged al-Qaida and Taliban combatants captured in Afghanistan washing before midday prayers at controversial Camp X-Ray, where they are being held in cages at the US Naval
 Mynd: EPA  -  AP POOL FILE
Áætlun um lokun bandarísku fangabúðanna á Guantanamo-flóa verður færð Bandaríkjaþingi í dag. Þetta staðfesti talsmaður bandaríska varnarmálaráðuneytisins við fjölmiðla í gær, en frestur til þess að skila greinargerð um lokun búðanna rennur einmitt út í dag.

Fangabúðirnar voru teknar í notkun eftir hryðjuverkaárásirnar á Tvíburaturnana í New York 11. september 2001. Fangarnir voru kallaðir vígamenn og neitað um lagaleg réttindi og var því hægt að halda þeim föngnum svo árum skipti án þess að ákæra þá eða færa fyrir dóm.

Frá því Barack Obama tók við völdum árið 2009 hefur hann reynt að loka búðunum. Hann segir búðirnar vera útungunarstofnun fyrir hryðjuverkamenn og nærist á hatri í garð Bandaríkjanna.

Alls hafa 780 verið í haldi í búðunum frá því þær opnuðu í ársbyrjun 2002, en nú er 91 fangi þar inni. Bandaríkin vilja að önnur lönd taki að sér fanga sem lítil hætta er talin stafa af, en um 50 fangar eru taldir of hættulegir til að þeim verði sleppt. Í fyrra var sveit á vegum varnarmálaráðuneytisins send til þess að skoða hvert væri hægt að flytja þá fanga innan Bandaríkjanna.