LHG keypti byssurnar af norska hernum

23.10.2014 - 18:00
Mynd með færslu
Landhelgisgæslan keypti í lok síðasta árs 250 MP5 hríðskotabyssur af norska hernum. Samningur um kaupin var undirritaður 17. desember í fyrra. Þetta staðfestir Dag Aamont, upplýsingafulltrúi norska hersins.

Hann vill ekki upplýsa meira um málið að svo stöddu. Hann vill ekkert segja um þá fullyrðingu íslenskra stjórnvalda um að byssurnar hafi verið gjöf frá norska hernum.

Eins og fram hefur komið hefur lögreglan aðeins talað um að hingað hafi komið 150 hríðskotabyssur. Hvar hinar 100 eru niðurkomnar er óljóst en þó líklegt að þær hafi farið til Landhelgisgæslunnar.

Samkvæmt samningnum greiðir Gæslan 625.000 norskar krónur fyrir byssurnar eða sem nemur um 11,5 milljónum króna. 

 

Sagði að vopnin hafi fengist gefins

Jón Bjartmarz, yfirlögregluþjónn hjá ríkislögreglustjóra, sagði í Kastljósi á þriðjudag að hann hafi notað orðið „aflað“ í samtölum við fjölmiðla sem hafi mögulega valdið ákveðnum misskilningi. „En það er ekki, þau fengust gefins og ég leiðrétti það hér með. Þessi fjárveiting sem við fengum til að efla búnað lögreglunnar - 78 milljónir - ekkert af henni var notað til að kaupa skotvopn.“