Leyniþjónustur sannfærðar um sekt Rússa

06.01.2017 - 02:38
Mynd með færslu
Tölvupóstlekinn hafði mikil áhrif innan Demókrataflokksins.  Mynd: ABC  -  Youtube
Bandarískar leyniþjónustur hafa borið kennsl á milliliðinn sem Rússar notuðu til að færa WikiLeaks tölvupósta innan úr stjórn Demókrataflokksins. Bandaríska fréttastofan CNN greinir frá þessu og hefur eftir ónefndum bandarískum embættismanni sem sagður er málinu kunnugur.

Barack Obama var sýnd skýrsla leyniþjónustu í gær varðandi mögulega tölvuglæpi Rússa í aðdraganda forsetakosninganna í Bandaríkjunum í fyrra. Skömmu fyrir kosningarnar var fjölda tölvupósta innan úr stjórn Demókrataflokksins lekið. Kom þar meðal annars fram að stjórnin vildi fyrir alla muni að Hillary Clinton yrði frambjóðandi flokksins í stað Bernie Sanders sem sótti hart að henni. Tölvupóstarnir voru birtir á lekasíðunni WikiLeaks á viðkvæmum tíma í kosningabaráttunni.

Nú virðist sem leyniþjónustur í Bandaríkjunum búi yfir nýjum upplýsingum um hverjir láku póstunum til WikiLeaks. Julian Assange, stofnandi WikiLeaks, hefur þvertekið fyrir að hafa fengið póstana frá Rússum. Nýju upplýsingarnar hafa gert leyniþjónusturnar enn sannfærðari um að Rússar hafi átt hlut að máli, meðal annars til þess að gera Donald Trump, verðandi forseta, auðveldara um vik í kosningabaráttunni.

Samtöl þar sem rússneskir embættismenn lýsa gleði sinni með kosningaúrslitin eru meðal þess sem finna má í nýju upplýsingunum að sögn CNN. Haft er eftir embættismönnum að það sé meðal fjölda annarra vísbendinga sem sýni ætlunarverk Rússa og aðild þeirra að lekanum.
Joe Biden, fráfarandi varaforseti, sagði í viðtali við fréttastofu PBS, að skýrslan komi til með að sýna svart á hvítu að Rússar hafi ætlað sér að eiga við forsetakosningarnar.

Skýrslan verður kynnt Trump í dag. Hann hefur lýst yfir miklum efasemdum með sekt Rússa í lekamálinu og hefur gagnrýnt bandarískar leyniþjónustur opinberlega fyrir niðurstöðu sína.