Leynd yfir atriðum í Game of Thrones

26.07.2013 - 20:39
Mynd með færslu
Stekkjargjá á Þingvöllum var lokað í dag fyrir almennri umferð ferðamanna vegna upptöku á sjónvarpsþáttunum Game of Thrones. Á þriðja hundrað manns vinna við þættina.

Þetta er í þriðja skiptið sem tökulið Game of Thrones þáttanna kemur hingað til lands. Í fyrstu tvö skiptin vildu framleiðendur vetrarveður; nú átti að fá sól og íslenskt landslag í blóma, og það virðist hafa gengið eftir.

Upptökur hér á landi hófust í síðustu viku. Í morgun var hópurinn mættur á Þingvelli, til að taka upp í Stekkjargjá, fyrir innan Öxarárfoss. Veðrið og landslagið var nýtt til hins ýtrasta í dag í tökur í Stekkjargjá. Á þriðja hundrað manns vinna við verkefnið, bæði erlendir starfsmenn og leikarar sem og íslenskir tæknimenn og aukaleikarar. Þingvallanefnd veitti leyfi fyrir þessu verkefni og miklar kröfur eru gerðar til umgengni  

Efnið sem hér verður tekið upp verður sýnt í fjórðu þáttaröð Game of Thrones sem frumsýnd verður næsta vor. Það hvílir eðlilega nokkur leynd yfir því hvernig atriðin líta út, þótt söguþráðurinn sé alkunnur úr vinsælum bókum sem þættirnir byggja á. Stekkjargjá var lokuð almennri umferð í dag vegna upptökunnar, og flestir virtust taka því með ró, enda er þetta fáfarinn staður miðað við aðra í þjóðgarðinum.