Leikbrúðustjórnendur handteknir á Spáni

10.02.2016 - 20:01
epa05153195 One of the two arrested puppet players, Raul Garcia Perez, after his release from the Soto del Real, Madrid, Spain, 10 February 2016. The two puppet players were arrested in Madrid after showing a poster reading 'Gora Alka-ETA' with
Annar mannanna, eftir að hann var látinn laus í dag.  Mynd: EPA  -  EFE
Tveir leikbrúðustjórnendur voru handteknir á Spáni á föstudag og sakaðir um að lofsyngja hryðjuverkastarfsemi. Mennirnir héldu leikbrúðusýningu í höfuðborginni Madrid í tilefni hátíðarhalda. Í sýningunni gerðist ýmislegt sem gekk fram af viðstöddum, sem flestir voru börn eða foreldrar þeirra. Þannig var nunnu nauðgað og dómari hengdur. Þá voru brúðurnar með skilti sem á stóð áletrun sem skilja mátti sem „lengi lifi ETA“ eða jafnvel „lengi lifi Al-Kaída“.

Á skiltinu stóð „Gora Alka-ETA“. Þannig er slagorðið „Gora ETA“ - „lengi lifi ETA“ - látið hljóma eins og „lengi lifi Al-Kaída“. Bæði ETA, sem eru aðskilnaðarsamtök Baska, og Al-Kaída hafa staðið fyrir mannskæðum hryðjuverkum á Spáni. 

Leikbrúðustjórnendurnir voru handteknir vegna skiltisins en látnir lausir síðdegis í dag, með ströngum skilyrðum. Yfirvöld hafa lagt hald á vegabréf þeirra, bannað þeim að fara úr landi og krafist þess að þeir láti dómstóla vita af sér á hverjum degi.

Handtakan vakti hörð viðbrögð víða á Spáni. Fjöldi stjórnmálamanna gagnrýndi það að mennirnir hafi verið handteknir fyrir að lofsyngja hryðjuverk. Handtakan feli í sér ógn við tjáningarfrelsi.

Kári Gylfason
Fréttastofa RÚV