Leggja til nýjar reglur um hælisleitendur

07.03.2016 - 02:20
epa05138431 Refugees and migrants disembark from the Blue Star Patmos ferry at the port of Piraeus, near Athens, Greece, 01 February 2016. The ship arrived in the port of Piraeus carrying some 2,000 refugees and migrants who landed the previous days on
 Mynd: EPA  -  ANA-MPA
Hælisumsóknum verður miðstýrt innan Evrópusambandsins verði nýjar tillögur samþykktar á fundi Evrópuráðs í Brussel 17. mars. Þetta staðhæfir Financial Times og segist hafa komist yfir gögn þessu til stuðnings.

Reynist þetta rétt verður það gjörbylting á stöðu flóttamanna og hælisleitenda sem koma til Evrópu. Núverandi lög ESB, Dyflinnarreglugerðin svokallaða, neyðir hælisleitendur til þess að sækja um hæli í fyrsta ESB-ríkinu sem þeir stíga fæti á. Verði nýja tillagan samþykkt verða hælisumsóknir allar sendar á stofnun hælisleitenda í Evrópu, European Asylum Support Office.

Dyflinnarreglugerðin hefur verið gagnrýnd harðlega síðustu mánuði vegna þess fjölda flóttamanna sem nú er kominn og er á leiðinni til Evrópu. Angela Merkel, kanslari Þýskalands, ákvað að hlýta ekki reglugerðinni í fyrra og bauð hælisleitendur velkomna til Þýaskalands. 

Fyrri tilraunir til þess að setja kvóta á flóttamenn innan ESB ríkja hafa ekki gengið upp. Erfitt getur reynst að koma af stað umræðu um nýjar tillögur þar sem Bretar eru á fullu að undirbúa þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhaldandi veru í sambandinu. Innflytjendur og landamæravarsla er mikið hitamál í kosningabaráttunni í Bretlandi.

Um 1,2 milljónir flóttamanna og hælisleitenda flúðu stríðsátök í Mið-Austurlöndum, Asíu og Afríku til ESB ríkja í fyrra.