Launafrystingin í Straumsvík lítilsvirðing

18.01.2016 - 18:32
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink  -  Ruv.is
Ríkissáttasemjari hefur boðað samningafund á föstudagsmorgun í langvinnri kjaradeilu starfsmanna álversins í Straumsvík og Rio Tinto Alcan. Lögmaður Verkalýðsfélagsins Hlífar segir að yfirlýsing móðurfélagsins Rio Tinto um launafrystingu feli í sér lítilsvirðingu gagnvart kjarasamningagerð fyrirtækisins hér á landi.

Aðalforstjóri Rio Tinto tilkynnti í síðustu viku að til að hámarka lausafé hefði verið ákveðið að frysta allar launahækkanir á þessu ári frá forstjóra og niður úr. Ástráður Haraldsson, lögmaður Verkalýðsfélagsins Hlífar í Hafnarfirði, telur að yfirlýsingin hafi í raun takmarkaða þýðingu.

„Að því er varðar heimildir verkalýðsfélaganna í Straumsvík til að knýja á um gerð nýrra kjarasamninga, og sækjast eftir launahækkunum til handa félagsmönnum sínum, þá hefur hún enga þýðingu,“ segir Ástráður. Hann segir að yfirlýsingin sé í hrópandi ósamræmi við launastefnu á íslenskum vinnumarkaði.

„Eftir því sem manni skilst þá eru Samtök atvinnulífsins nú þeir sem fara með samningsumboðið fyrir hönd álversins í Straumsvík við gerð kjarasamninga við verkalýðsfélögin. Manni kæmi mjög á óvart ef að þetta reynist vera sú nýja lína sem Samtök atvinnulífsins hafa um launakjarabreytingar á íslenskum vinnumarkaði.“

En breytir þá yfirlýsingin í rauninni engu um stöðu þessara viðræðna?

„Ja sko, ég get ekki sagt það, því mér virðist nú að þetta lýsi afstöðu sem er í fólgin fullkomin lítilsvirðing gagnvart því verkefni sem fyrirtækið stendur frammi fyrir við gerð kjarasamninga hér á Íslandi. Það er nú ekki líklegt að það sé til þess fallið að liðka fyrir við gerð kjarasamninga að gefa svona yfirlýsingar.“