Lát á árásum í Sýrlandi

27.02.2016 - 08:19
Miðborg Raqqa, 2009
Miðborg Raqqa árið 2009, áður en borgarastyrjöldin hófst í Sýrlandi. Raqqa er höfuðvígi samtakanna Íslamska ríkisins.  Mynd: Flickr
Lát hefur orðið á skotbardögum og sprengingum í vesturhluta Sýrlands í morgun, en tímabundið og takmarkað vopnahlé tók gildi í landinu klukkan tíu í gærkvöld að íslenskum tíma.

tEf vopnahléið heldur, verður það í fyrsta sinn sem vesturveldunum tekst að semja um hlé á átökum í stríðinu í Sýrlandi síðan það hófst árið 2011. Staffan de Mistura, erindreki Sameinuðu þjóðanna í málefnum Sýrlands, segir vopnahléð það besta sem komið hafi fyrir íbúa Sýrlands síðastliðin fimm ár og veiti þeim von um að hægt verði að semja um frið þegar fram líða stundir. 

Samkvæmt upplýsingum frá Sýrlensku mannréttindavaktinni er friðsælt um að litast í Damaskus og nágrenni í fyrsta skipti í mörg ár. Í Latakíu, þar sem herstöð rússneska flughersins er, hafa engar orustuþotur tekið á loft í morgun. 

Í Aleppo og Lakitíu hafa engar sprengjur fallið frá því í gærkvöld, en rétt áður en vopnahléið hófst í gær gerðu sýrlenskar og rússneskar orrustuþotur ítrekaðar loftárásir á uppreisnarmenn á nokkrum stöðum í landinu. Lítil von þykir þó til þess að bardögum linni til langframa þar sem margar stærstu vígasveitir landsins telja sig óbundnar af vopnahléinu. 

Vopnahléð nær ekki til hryðjuverkasamtakanna Íslamska ríkisins og Al-Nusra, Sýrlandsarms Al-Kaída. Í yfirlýsingu frá Al-Nusra í gær eru liðsmenn samtakanna hvattr til þess að herða árásir sínar á stjórnarher Assads forseta og bandamenn hans. 

Sameinuðu þjóðirnar kröfðust þess í gær að allir sem kæmu að vopnahlénu stæðu við það, enda væri það mikilvægur þáttur í því að binda á stríðið í Sýrlandi. 250 þúsund manns hafa látið lífið síðan stríðið hófst og ellefu milljónir manna hrakist frá heimilum sínum. 

Friðarviðræður halda áfram 7. mars, að því gefnu að vopnahléið haldist. 

Barack Obama Bandaríkjaforseti varar þó bæði Rússa og Sýrlandsstjórn við því að freistast til að rjúfa vopnahléið gegn þeim uppreisnarmönnum sem eigi aðild að því. Heimurinn muni fygljast grannt með þróun mála. 

Mynd með færslu
Guðmundur Björn Þorbjörnsson
Fréttastofa RÚV