Landsbankinn fær ekki hlut í hagnaði Borgunar

20.01.2016 - 13:41
Mynd með færslu
 Mynd: Landsbankinn Landsbankinn
Landsbankinn, sem seldi 31,2 prósenta hlut í kortafyrirtækinu Borgun fyrir 2,2 milljarða króna til fjárfesta sumarið 2014, fær ekki hlut í hagnaði fyrirtækisins vegna yfirtöku Visa International Service á Visa Europe. Hagnaður íslensku kortafyrirtækjanna vegna viðskiptanna er talin nema vel á annan tug milljarða króna.

Landsbankinn, sem er í 98 prósenta eigu íslenska ríkisins, seldi umræddan hlut sinn í Borgun til Eignarhaldsfélagsins Borgun slf. bakvið luktar dyr, án þess að gefa öðrum áhugasömum fjárfestum tækifæri til að bjóða í hlutinn. Söluferlið var harðlega gagnrýnt, og þá sagði Tryggvi Pálsson, formaður bankráðs Landsbankans í fyrra, að betra hefði verið að auglýsa hlutinn til sölu og selja í opnu og gagnsæju ferli.

Að Eignarhaldsfélaginu Borgun standa meðal annarra Einar Sveinsson, og Benedikt Einarsson sonur hans, en Einar er föðurbróðir Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra. Á síðasta aðalfundi Borgunar hf., sem haldinn var í febrúar á síðasta ári, var ákveðið að greiða hluthöfum félagsins 800 milljónir króna í arð vegna rekstur þess á árinu 2014. Var þetta í fyrsta skipti að greiddur var út arður úr félaginu síðan árið 2007. Þá hefur komið fram að stjórnendur Borgunar voru á meðal þeirra sem keyptu hlut Landsbankans í félaginu. 

Tilkynnt um viðskiptin í byrjun nóvember

Tilkynnt var um yfirtöku Visa International Service á Visa Europe þann 2. nóvember síðastliðinn. Kaupverðið hljóðar upp á um 3.000 milljarða íslenskra króna, og fá kortafyrirtækin Valitor og Borgun milljarða í sinn hlut vegna viðskiptanna. Upphæðin sem fyrirtækin fá mun reiknast sem hlutfall af heildarumsvifum þeirra fyrirtækja í Evrópu sem gefa út kortin.

Tilkynnt var um sölu Landsbankans á 38 prósenta eignarhlut bankans í Valitor Holding hf., sem er móðurfélag Valitor, til Arion banka þann 18. desember 2014. Í tilkynningu vegna viðskiptanna kemur fram að Arion banki muni greiða Landsbankanum viðbótargreiðslu fái Valitor greiðslur frá Visa Europe vegna fyrirhugaðrar yfirtöku Visa International Service. Í tilkynningunni segir: „Væntingar eru um að viðbótargreiðslan gæti numið verulegum hluta af verðmæti hlutafjár Landsbankans í Valitor Holding hf.“

Samkvæmt heimildum fréttastofu hefur lengi verið uppi orðrómur um yfirtöku Visa International Service á Visa Europe. Heimildarmenn fréttastofu segja að hann hafi verið uppi jafnvel í áraraðir, án þess að nokkuð hafi legið fyrir um hvenær af honum gæti orðið.

Ekkert slíkt ákvæði í Borgunar-samningnum

Í samtali við fréttastofu segir Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans, að sambærilegt ákvæði og var í kaupsamningnum við Arion banka, vegna sölunnar á hlut Landsbankans í Valitor, sé ekki að finna í samningnum vegna sölu bankans á hlutnum í Borgun. Landsbankinn fær því ekki hlut í hagnaði Borgunar vegna yfirtöku Visa International Service á Visa Europe.

„Helsta ástæðan fyrir því að Landsbankinn ákvað að selja hlut sinn í Borgun og Valitor var þrýstingur frá samkeppnisyfirvöldum um að breytingar yrðu gerðar á kortamarkaði,“ segir Steinþór í skriflegu svari við fyrirspurn fréttastofu. „Þegar verið var að semja um sölu á hlut Landsbankans í Borgun um mitt ár 2014, var samið um kaupverðið í ljósi upplýsinga sem lágu fyrir um rekstur Borgunar og rekstraráætlana fyrirtækisins. [...] Samkvæmt upplýsingum Landsbankans er sá hlutur sem Borgun fær vegna sölu á Visa Europe að langmestu leyti tilkominn vegna erlendrar starfsemi Borgunar eftir að Landsbankinn seldi hlut sinn í fyrirtækinu.“

Haukur Oddsson, forstjóri Borgunar, segir í samtali við fréttastofu að vöxtur fyrirtækisins erlendis hafi byrjað árið 2009, og hafi verið jafn og stígandi síðan. Þá hafi langmesti vöxturinn átt sér stað á tímabilinu frá fyrrihluta árs 2014 og til dagsins í dag.

Árið 2014 lágu fyrir áætlanir Borgunar um að auka erlenda starfsemi sína sem er í eðli sínu mjög áhættusöm, eins og reynsla íslenskra kortafyrirtækja hefur sýnt. Allt hafði þetta áhrif á verðmat og samningaviðræður um sölu á Borgun,“ segir Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans, að lokum í skriflegu svari sínu við fyrirspurn fréttastofu.

      

 

 

Ægir Þór Eysteinsson
Fréttastofa RÚV