Landið jöklalaust innan tveggja alda

16.03.2016 - 23:59
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Anton Brink  -  RÚV
Oddur Sigurðsson jöklafræðingur lýsti áhyggjum sínum af því á fundi Ferðafélags Íslands í kvöld hve íslenskir jöklar hafa hörfað undanfarna áratugi. Þar sýndi hann myndir af stórfelldum breytingum sem orðið hafa. Hann segir að útlit sé fyrir að landið verði jöklalaust innan tveggja alda.

Oddur segir að jöklar landsins hafi minnkað hvert einasta ár síðustu 20 ár að undanskildu árinu í fyrra. „Það eru hreinustu aftök að svona mörg ár skuli koma með neikvæðri afkomu fyrir jöklana. Við þekkjum ekki önnur eins tíðindi úr sögunni,“ segir hann og bætir við að hann telji að allir loftslagsvísindamenn séu sammála um að þessi þróun sé af mannavöldum. Þegar þetta gerist á skömmum tíma sé hætta á að ójafnvægi sé í kerfinu.

Breiðamerkurjökull segir Oddur að hafi breyst mest. Um aldamótin 1900 hafi hann náð alla leið út í sjó en nú hafi hann styst um tæpa 7 kílómetra og þar sé nú komið dýpsta stöðuvatn landsins. Þá hafi Sólheimajökull snarminnkað á nokkrum árum. Svo hafi fjöldi smærri jökla hreinlega horfið.

„Sennilega er sá kunnasti þeirra Okjökull og margir fleiri eru horfnir. Ég held að Kaldaklofsjökull sér horfinn og það er mjög stutt í það að Torfajökull fari líka,“ segir hann og bætir við að landið verði jöklalaust eftir 200 ár, mögulega talsvert fyrr.

„Breytingarnar eru líka mjög örar og jafnvel örari en við mestu náttúruhamfarir sem við þekkjum úr jarðsögunni. Þar með eru breytingarnar á lífríkinu afskaplega örar líka. Útdauði tegunda er fyllilega á við og jafnvel verri en maður vill kannst við annars staðar úr jarðsögunni og það er bara ekki gott að segja hvert þetta leiðir en ekki er það gott,“ segir Oddur Sigurðsson. 

 

Mynd með færslu
María Sigrún Hilmarsdóttir
Fréttastofa RÚV