Kynferðisbrotamaður fær lögmannsréttindi aftur

15.06.2017 - 16:22
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink RÚV  -  RÚV Anton Brink
Hæstiréttur féllst í dag á það að veita Robert Downey, sem áður hét Róbert Árni Hreiðarsson, lögmannsréttindi sín á ný. Robert var árið 2008 dæmdur í þriggja ára fangelsi í Hæstarétti fyrir kynferðisbrot gegn fjórum unglingsstúlkum. Forseti Íslands veitti honum uppreist æru 16. september í fyrra að tillögu innanríkisráðherra og öðlaðist hann þá óflekkað mannorð í skilningi laga, að því er segir í dómi Hæstaréttar.

Héraðsdómur hafði áður einnig fallist á beiðnina um að hann fengi lögmannsréttindin aftur. Í niðurstöðu héraðsdóms er vísað í dóm í máli Þorvaldar Ara Arasonar, sem árið 1980 fékk lögmannsréttindi sín aftur þrátt fyrir að hafa þrettán árum áður verið dæmdur í sextán ára fangelsi fyrir manndráp.

„Má af því leiða að þrátt fyrir að einstaklingur gerist sekur um stórfellt hegningarlagabrot, sem alvarlegust teljist að almenningsáliti og lögum, sé svipting starfsréttinda með dómi ekki fortakslaus til allrar framtíðar,“ segir í dómi héraðsdóms.

Tældi til sín stúlkur í erfiðleikum

Robert, þá Róbert Árni, var dæmdur fyrir að tæla til sín fjórar stúlkur, þrjár 15 ára og eina 14 ára, með blekkingum og peningagreiðslum og nýta sér yfirburðastöðu sína gagnvart þeim, „sem honum hafi verið ljóst að stóðu höllum fæti og hafi átt við erfiðleika að stríða,“ segir í dómi Hæstaréttar frá 2008. Tvær þeirra höfðu verið á meðferðarheimilinu Stuðlum.

Málið hófst þegar ein þeirra sagði starfsfólki Stuðla frá því að hún hefði margsinnis átt í kynferðissamskiptum við Robert og að hann hefði greitt henni fyrir það.

Mynd með færslu
Robert Downey, áður Róbert Árni Hreiðarsson.  Mynd: Facebook

Þóttist vera 17 ára strákur

Robert tældi stúlkurnar meðal annars í gegnum spjallforritið MSN og þóttist þar vera 17 ára strákur sem héti Rikki. Þá hélt hann kynferðisbrotum sínum gegn einni stúlkunni áfram eftir að honum varð kunnugt um að hann væri grunaður um brot gagnvart einni hinna stúlknanna.

Hann var ákærður fyrir að hafa tælt eina fimmtán ára stúlku til kynferðismaka í fimmtán skipti, aðra einu sinni, fjórtán ára stúlkuna í tvígang og að hafa reynt að tæla þá fjórðu til kynferðismaka. Hann var ákærður fyrir að borga þeirri síðastnefndu fyrir að sýna á sér brjóstin og fróa sér í gegnum vefmyndavél.

Robert var einnig ákærður fyrir að hafa í fórum sínum fimm myndbandsspólur sem sýndu barnaníð og samtals 211 slíkar ljósmyndir. Héraðsdómur dæmdi hann sekan um þetta en Hæstiréttur sýknaði hann hins vegar.

Starfaði í Barnahúsi þegar mál hans var rannsakað

Fjallað var um mál Roberts í Kompási á Stöð 2 á sínum tíma og þar kom fram að hann hefði haldið fullum réttindum sínum sem lögmaður þau tvö ár sem mál hans var rannsakað og dvalið löngum stundum í Barnahúsi við að yfirheyra fórnarlömb meintra kynferðisbrotamanna sem voru skjólstæðingar hans.

Í dómi héraðsdóms yfir Roberti segir: „Þá verður ekki hjá því litið að ákærði var starfandi lögmaður er hann framdi brotin en hann hefur m.a. annast hagsmunagæslu fyrir brotaþola í sakamálum og sinnt verjandastörfum í kynferðisbrotamálum. Voru honum því fyrirfram einkar ljósir hinir mikilsverðu hagsmunir er brot hans beindust gegn.“

Þarf ekki að spyrja Lögmannafélagið

Robert fór fram á það í febrúar síðastliðnum að fá lögmannsréttindin aftur. „Hann hafi starfað sem héraðsdómslögmaður áður en réttindin hafi verið af honum tekin og hafi í hyggju að sinna samskonar störfum á ný. Þá skipti það hann miklu máli að geta skilið við þann kafla í lífi sínu sem leitt hafi til dómsins á árinu 2008. Liður í því sé að endurheimta málflutningsleyfið,“ segir í niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur frá 31. maí.

Lögmannafélagið lagðist nýverið gegn því að Atli Helgason, sem dæmdur var í sextán ára fangelsi fyrir manndráp árið 2001, fengi lögmannsréttindi sín á nýjan leik. Þegar honum varð andstaðan ljós féll hann frá beiðninni um að fá réttindin aftur.

Í dómi Hæstaréttar í dag kemur fram að Robert hafi verið sviptur réttindum sínum í samræmi við ákvæði hegningarlaga, og að úr því að Lögmannafélagið hefði ekki komið nálægt sviptingunni sé óþarft að leita umsagnar þess um það hvort rétt sé að hann fái þau aftur.

Uppfært kl. 17.51:
Í fyrri útgáfu fréttarinnar sagði að Robert hefði verið dæmdur sekur fyrir að hafa í fórum sínum myndefni sem sýndi barnaníð. Hið rétta er að Hæstiréttur sýknaði hann af þessu eftir að héraðsdómur hafði dæmt hann sekan.

Mynd með færslu
Stígur Helgason
Fréttastofa RÚV