Kvikuinnskotið nálgast sprungukerfi Öskju

Dyngjujökull. Mynd: Lára Ómarsdóttir/RÚV


  • Prenta
  • Senda frétt

Um 450 jarðskjálftar urðu í nótt við Bárðarbungu og Dyngjujökul, margir yfir þrír af stærð. Þótt skjálftavirkni sé minni en í gær er hún enn mjög mikil og hefur gengið í hviðum í nótt og í morgun.

„Upp úr svona miðnættinu dró nokkuð úr virkninni í gær, sem var mjög mikil. En hún jókst aftur milli 2 og 5. Eftir 5 dró svo úr henni á ný. Skjálftavirknin kemur í skjálftahviðum sem geta varað í nokkra klukkutíma en minnka svo á milli,“ segir Gunnar B. Guðmundsson, jarðvísindamaður hjá jarðvárdeild Veðurstofu Íslands.

Skjálftavirknin er mest skammt norður af jökuljaðri Dyngjujökuls, út frá berggangi sem þar hefur myndast.  „Eiginlega allir skjálftarnir í nótt voru við norðurjaðarinn á Dyngjujökli þar sem innskotsgangurinn hefur verið að færast í norður. Hann hefur færst eilítið í norður, er kominn 5 km frá norðurjaðri Dyngjujökuls og hann er nú kominn inn í sprungusveiminn sem tilheyrir Öskju,“ segir Gunnar. „Hátt í 10 skjálftar voru yfir þremur að stærð, þeir stærstu um 3,5 og þeir áttu allir upptök sín við innskotsganginn við Dyngjujökulinn.“

Skjálftarnir mælast enn á 5-10 kílómetra dýpi og engin merki eru um gosóróa. Aðspurður um hvaða þýðingu það gæti haft fyrir möguleg eldsumbrot að berggangurinn, sem tók að myndast þegar kvika þrýsti sér inn í sprungu djúpt ofan í jarðskorpunni undir Dyngjujökli, væri komin inn fyrir sprungukerfi Öskju, segir Gunnar að spennandi sé fyrir jarðvísindamenn að fylgjast með því. „Það er talað um að hafi gosið þarna 1797 þar sem hið svokallaða Holuhraun hafi myndast. Þetta er eiginlega að fylgja þeim sprungusveimi sem er þar og er komið á það svæði. Það er kannski eins og sumir jarðfræðingar hafa haldið gæti verið möguleiki á að gos kæmi upp á sama stað. En það sjást engin merki um að kvikan sé að leita upp,“ segir Gunnar.

Páll Einarsson, prófessor í jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands telur að framrás berggangsins norður af Dyngjujökli kunni að breyta hugmyndum manna um sprungukerfi Bárðarbungu, en viðtal við hann má lesa hér.

Ertu með athugasemd vegna fréttarinnar? Sendu á frettir@ruv.is

Tilkynna um bilaða upptöku