Kvikmyndaleikarinn George Kennedy látinn

29.02.2016 - 23:54
Mynd með færslu
 Mynd: YouTube
Bandaríski kvikmyndaleikarinn George Kennedy er látinn 91 árs að aldri. Barnabarn hans greindi frá því að afi sinn hefði dáið í gær í borginni Boise í Idaho. Hann hafði átt við vanheilsu að stríða síðastliðið ár og dvaldi á líknardeild síðastliðinn mánuð.

George Kennedy hlaut Óskarsverðlaunin árið 1968 fyrir besta leik í aukahlutverki í kvikmyndinni Cool Hand Luke. Þá gat hann sér gott orð fyrir leik sinn í Naked Gun-gamanmyndunum. Einnig lék hann í nokkrum hamfaramyndumá áttunda áratug síðustu aldar, svo sem Earthquake og Airport. Síðasta myndin sem hann lék í var Gambler, sem frumsýnd var fyrir tveimur árum.

Kennedy var hermaður í síðari heimsstyrjöldinni og var sæmdur nokkrum orðum fyrir vasklega framgöngu. Eftir stríðið vann hann hjá útvarps- og sjónvarpsstöðvum Bandaríkjahers þar til hann settist að í Hollywood og haslaði sér völl sem kvikmyndaleikari.

 

Mynd með færslu
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV