Kveikt á áróðurshátölurum í Suður-Kóreu

08.01.2016 - 04:17
epa04862317 North Korean soldiers (background) look towards South Korea as South Korean soldiers stand guard at the Military Demarcation Line in the Demilitarized Zone (DMZ) in the border village Panmunjom, South Korea, 27 July 2015. Both Koreas
Hermenn á hlutlausa svæðinu.  Mynd: EPA  -  EPA POOL
Stjórnvöld í Suður-Kóreu kveiktu í nótt á stórum hátölurum við landamærin sem varpa áróðri yfir til nágranna sinna í norðri. Mikil spenna er aftur hlaupin í samskipti ríkjanna eftir tilraun Norður-Kóreu með kjarnavopn í vikunni.

Kveikt var á hátölurunum klukkan þrjú í nótt, en þá var hádegi í Kóreu. Varpað er áróðri gegn Norður-Kóreu í gegnum hátalarana, svo heyrist í margra kílómetra fjarlægð sé vindáttin hagstæð. Þetta framferði Suður-Kóreu kemur illa við norður-kóresk stjórnvöld. Í ágúst á síðasta ári lá við stríði á milli þjóðanna þegar kveikt var á þeim í kjölfar láts tveggja suður-kóreskra hermanna við hlutlausa svæðið á landamærunum.

 Haft er eftir talsmanni varnarmálaráðuneytis Suður-Kóreu að suður-kóreska tónlist megi nú heyra í gegnum hátalarana, allt frá nýjustu popptónlistinni til sorgarsvöngva, á milli þess sem stjórnvöld í norðri eru gagnrýnd og lýðræði er dásamað. Lagið Bang Bang Bang með drengjahljómsveitinni Big Bang er eitt þeirra laga sem látið er hljóma yfir landamærin.