Kveður Litlu kaffistofuna eftir 25 ára starf

09.01.2016 - 20:29
Ég myndi ekki vilja láta gamlan kall afgreiða mig með pylsu, segir veitingamaðurinn á Litlu kaffistofunni við Suðurlandsveg sem ætlar að draga sig í hlé að hafa staðið vaktina í nærri aldarfjórðung.

Litla kaffistofan var opnuð árið 1960 og frá 1992 hefur Stefán Þormar Guðmundsson rekið hana. Hann er að verða sjötugur og hefur ákveðið að draga sig í hlé.

„Það eru viðskiptavinirnir sem koma hingað sem standa upp úr maður er manns gaman. Maður er að spjalla við menn um daginn og veginn og ef þeir kæmu ekki hingað þá væri engnn hér í afgreiðslu og ekki ég heldur,“ segir Stefán. 

Hann segir sjálfur að Litla kaffistofan sé vin í eyðimörkinni. Margoft hefur hún hýst strandaglópa í aftakaveðrum og þar stendur ein minning upp úr.

„Það er engin spuning þegar vitlausa veðrið gerði hérna í febrúar 1996 og við stóðum hérna upp undir fjörutíu tíma á vaktinni á meðan við fórum ekki lönd né strönd og þá var verið að bjarga fólki hér.“

Hann segir heimabakað brauð, pönnukökur og kjötsúpu vera aðalsmerki staðarins en kemur ekki nálægt pylsunum.

„Ég myndi ekki vilja láta gamlan kall afgreiða mig um pulsur og þess vegna kem ég ekki nálægt pulsupottinum. Það er bara starf fyrir ungt fólk að afgreiða pulsur.“

Uppi um alla veggi eru fótboltamyndir, fánar liða og treflar sem hann hefur safnað í áratugi. Hann er sjálfur stuðningsmaður ÍA og Dynamo Kiev. Hann vonar að safnið verði áfram á sínum stað.

„Ég bara vona að það verði og það á að verða. Sagan er til, fótboltinn er svo vinsæll og þess vegna erum við komin á evrópumótið í Frakklandi í sumar.“

 

Valgeir Örn Ragnarsson
Fréttastofa RÚV