Kristni í Miðausturlöndum að líða undir lok

22.01.2016 - 11:00
Það stefnir í að forn kristin samfélög í Miðausturlöndum líði undir lok á næstu árum eða fáum áratugum. Íslamskir öfgamenn (ISIS) hafa drepið eða hrakið á brott fjölda kristinna. Vaxandi öfgastefna og þjóðernishyggja á svæðinu þrengir stöðugt að kristnu fólki, sem flýr til annarra landa. Að auki hafa efnahagsþrengingar í Miðausturlöndum leitt til fækkunar kristinna.

Magnús Þorkell Bernharðsson, sérfræðingur í sögu Miðausturlanda, ræddi þessa þróun á Morgunvaktinni á Rás 1.

Snemma í sögu kristninnar urðu til söfnuðir í Miðausturlöndum sem þróuðust í aðra átt en stóru kirkjudeildirnar sem lutu stjórn í Róm og Konstantínópel. Upp úr aldamótunum 1900 töldust kristnir í Miðausturlöndum vera um 14% íbúa –  nú er hlutfall þeirra komið niður í um 4% og þeim fer hratt fækkandi.

Íslamskar vígasveitir hafa drepið mikinn fjölda kristinna og gert eigur þeirra upptækar, vaxandi öfgahyggja þrengir að kristnu fólki. Efnahagsástandið á síðustu árum hefur jafnframt hrakið kristna miðstéttarmenn til Vesturlanda og til viðbótar er sú staðreynd að kristnir eignast færri börn en fólk í öðrum trúarhópum á svæðinu.

Magnús Þorkell Bernharðsson ræðir þessa stöðu á málþingi sem Stofnun dr.Sigurbjörns Einarssonar efnir til í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands í dag, 22.janúar, kl. 14.00.

Mynd með færslu
Óðinn Jónsson
dagskrárgerðarmaður
Morgunvaktin
Þessi þáttur er í hlaðvarpi