Kristallar hverfa enn úr Helgustaðanámu

19.03.2017 - 21:17
Ferðamenn sem skoða Helgustaðanámu við Reyðarfjörð hafa gjarnan á brott með sér fágæta kristalla úr silfurbergi. Bóndi í sveitinni gagnrýnir að fjármunir hafi verið settir í að bæta aðgengi að námunni en ekki í að verja hana með landvörslu.

„Fljótt að hverfa“

Bærinn Útstekkur stendur við norðanverðan Reyðarfjörð í gamla Helgustaðahreppi. Íbúar þar hafa lengi horft upp á djásn sveitarinnar, silfurbergið í Helgustaðanámu, hverfa. Sjá má brot úr námunni í eldhúsglugganum en vandamálið er að allur heimurinn vill eignast mola. „Maður sér koma bíla sem hafa staðið fyrir neðan námuna og menn hafa verið þar með græjur uppi í námunni. Hamra og meitla og dót og verið að höggva sér sýnishorn. Þegar þessi trafík skiptir orðið hundruðum og þúsundum þá er þetta fljótt að hverfa,“ segir Heiðberg Hjelm, en hann býr á Útstekk. Hann man námuna eins og hún var fyrir meira en hálfri öld og vísar okkur á stað í hvelfingu fyrir ofan námugöngin. „Hérna var silfurbergssúla alveg upp undir brún fram undir 1960. Þá var byrjað að brjóta úr henni og í dag er ekkert eftir. Hún er alveg horfin.“

Sanka að sér kristöllum og nota sem skiptivöru

Fyrir nokkrum árum stöðvaði lögreglan menn með á annað hundrað kíló af silfurbergi á leið úr landi og síðasta sumar stóðu heimamenn steinaþjófa ítrekað að verki. Silfurberg finnst aðeins á nokkrum stöðum í heiminum og í tærum molum klofnar ljósið í tvo geisla og því nýttust þeir til rannsókna. „Ég hafði tal af svissneskum steinasöfnurum sem komu hérna og þeir sögðu bara: Við fáum mola hér og þar á þessum stöðum, og svo er þetta bara skiptivara. Það hefði frekar þurft að bjóða upp á minjagripi undir eftirliti og eftir einhverju kerfi en ekki að láta Pétur og Pál bara vaða í þetta,“ segir Heiðberg.

Vilja fá landvörð í Fjarðabyggð

Fjármunir hafi verið settir í bílastæði, salernisaðstöðu og göngustíg en engir peningar hafa verið settir í að verja eða vakta námuna sjálfa. Á skiltum við bílastæðið stendur reyndar að bannað sé að hirða silfurberg af svæðinu en svo virðist sem margir taki ekki mark á því.  Landvörður frá Teigarhorni hafði aðeins tök á þremur ferðum í námuna síðasta sumar en enginn sérstakur landvörður er í Fjarðabyggð. Í einni ferðinni stöðvaði landvörðurinn þýskan mann með lúkurnar fullar af silfurbergi en gerði viðkomandi að skila kristöllunum. Þá fékk landvörðurinn símtal þar sem hann var látinn vita af mönnum sem hefðu fyllt bakpoka en gat ekki aðhafst. Heiðberg hefur í rúman aldarfjórðung bent á nauðsyn þess að vernda námuna og fyrst nú er verndaráætlun í smíðum. Samkvæmt drögum á meðal annars að fjölga bannskiltum á næsta ári. Bæjaryfirvöld í Fjarðabyggð hafa barist fyrir aukinni landvörslu.

Ríkið ber ábyrgð á svæðinu

„Ég vil nú taka fram að þetta verkefni er á ábyrgð ríkisins. Sveitarfélagið hefur átt frumkvæði að því að koma þarna með fjármuni til þess að byggja þennan stað upp það er að segja aðgengi að honum og við höfum líka verið að leggja áherslu á það núna við umhverfisráðherra og umhverfisráðuneytið að það verði komið fyrir landvörslu á þessu svæði. Það er enginn sérfræðingur hér frá Umhverfisstofnun eins og er um allt land. Og það er mjög mikilvægt að vera þarna með gæslu en ríkið ber ábyrgð á því,“ segir Páll Björgvin Guðmundsson, bæjarstjóri í Fjarðabyggð. 

Silfurbergið flutt út á árum áður

Fram kemur á vef Umhverfisstofnunar að Helgustaðanáma hafi verið friðlýst sem náttúruvætti árið 1975. Þar segir ennfremur: „Silfurberg kallast sérlega tærir kristallar af steindinni kalsít (einnig oft nefnt kalkspat). Erlent heiti silfurbergs á helstu málum er tengt Íslandi (Iceland spar, Spar d’Islande, o.sv. frv.) og er eitt fárra fyrirbæra úr ríki náttúrunnar sem kennt er við Ísland. Einna stærstu og tærustu eintökin af silfurbergi í heiminum hafa fundist á stað nálægt bænum Helgustaðir við norðanverðan Reyðarfjörð. Silfurbergi frá Helgustöðum mun hafa verið safnað allt frá miðri 17. öld en vinnsla þess náði hámarki á 19. öld og stóð rétt fram yfir 1920. Silfurberg (Kalsít) var sótt í námuna frá 17. öld fram á miðja 20.“

 

Mynd með færslu
Rúnar Snær Reynisson
Fréttastofa RÚV