Krefst þyngri dóms yfir bankastjóranum

Mynd með færslu
Sigurjón Árnason við réttarhöld í héraðsdómi, ásamt verjanda sínum, Sigurði G. Guðjónssyni  Mynd: RÚV
Saksóknari krafðist þess í Hæstarétti í morgun að refsing Landsbankamanna, sem voru dæmdir fyrir markaðsmisnotkun í viðskiptum með hlutabréf í Landsbankanum í hittifyrra, yrði þyngd. Til greina kæmi að dæma bankastjórann í meira en sex ára fangelsi.

Sakfellt fyrir brot af ákærunni í héraði

Sérstakur saksóknari ákærði fjóra Landsbankamenn fyrir allsherjarmarkaðsmisnotkun með umfangsmiklum kaupum á hlutabréfum í bankanum í kauphöll í tæpt ár fyrir hrun. Héraðsdómur taldi aftur á móti aðeins sannað að markaðsmisnotkun hefði átt sér stað síðustu fimm dagana fyrir hrun.  

Sigurjón Árnason, fyrrverandi bankastjóri, var í nóvember 2014 dæmdur í eins árs skilorðsbundið fangelsi í héraðsdómi, þar af níu mánuði skilorðsbundið. Tveir undirmenn hans, Ívar Guðjónsson og Júlíus Steinar Heiðarsson, fengu níu mánaða dóm, þar af sex mánuði skilorðsbundið. Þriðji undirmaðurinn, Sindri Sveinsson, var sýknaður. Dómnum var áfrýjað til Hæstaréttar.

Vill að sakfellt verði fyrir alla dagana

Arnþrúður Þórarinsdóttir saksóknari krafðist þess í málflutningsræðu í Hæstarétti í morgun að fjórmenningarnir yrðu sakfelldir fyrir markaðsmisnotkun alla dagana sem ákæran tekur til. Hún benti á að á tímabilinu, sem ákært er fyrir, frá nóvember 2007 til október 2008, hefði deild eigin viðskipta Landsbankans keypt hlutabréf í bankanum fyrir 56 milljarða króna. Þetta hefðu verið um 20% af öllum hlutabréfum í bankanum.

„Það var bara stöðugt passað upp á það að það yrði ekki verðfall á bréfunum,“ sagði saksóknari. Landsbankinn hefði keypt miklu meira af eigin hlutabréfum í kauphöllinni en hann seldi þar, og mikið tap bankans af kaupunum benti til þess að ekki hefðu legið viðskiptalegar forsendur að baki þeim. 

Bankastjórinn fékk þungan dóm fyrir sölu bréfanna

Saksóknari benti á að Landsbankinn hefði reglulega þurft að losna við hlutabréfin, sem söfnuðust upp á reikningi bankans, til að hlutabréfaeignin færi ekki yfir lögbundin 5% flöggunarmörk. Á ákærutímabilinu hefðu fáir aðrir en bankinn sjálfur verið til í að mæta auknu framboði á hlutabréfum í Landsbankanum. Bankinn hefði ekki getað steypt eigin hlutabréfum inn á markað án þess að verðið lækkaði. Þess vegna hefðu valdir viðskiptavinir bankans verið látnir kaupa hlutabréfin af bankanum, utan kauphallar.

Sigurjón hefur þegar hlotið þriggja og hálfs árs fangelsisdóm í Hæstarétti fyrir markaðsmisnotkun og umboðssvik við sölu á eigin hlutabréfum í bankanum utan kauphallar. Elín Sigfúsdóttir, fyrrverandi framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs, og Steinþór Gunnarsson, fyrrverandi forstöðumaður verðbréfamiðlunar Landsbankans, fengu einnig fangelsisdóm fyrir þátt sinn í viðskiptunum.

Telur meira en sex ára fangelsi koma til greina

Saksóknari krafðist þess í morgun að refsing Sigurjóns, Ívars og Júlíusar Steinars yrði þyngd frá dómi héraðsdóms og gerð óskilorðsbundin, og að Sindra yrði einnig refsað. Saksóknarinn benti á að ef Sigurjón verður dæmdur í þessu máli kæmi refsing hans til viðbótar við fyrri dóm Hæstaréttar, og benti jafnframt á að þótt hámarksrefsing fyrir þessi brot væri sex ára fangelsi gæti dómurinn nýtt sér sérstakt lagaákvæði sem leyfir að bætt sé við refsinguna allt að helmingi, þannig að hámarksrefsingin yrði níu ár. Saksóknari segir rétt að líta til ólíkrar stöðu sakborninganna, sérstaklega Júlíusar og Sindra, sem voru almennir starfsmenn eigin viðskipta bankans. Einnig sé ljóst af gögnum málsins að þátttaka Sindra hafi verið mun minni en Júlíusar.

Saksóknarinn sagði í lokin að þau markaðssvik, sem sakborningarnir eru sakaðir um, hefðu gefið alranga mynd af eftirspurn eftir hlutabréfum í Landsbankanum fyrir hrun. Í tæpt ár hefði hlutabréfaverðinu verið haldið uppi með skipulögðum hætti og sakborningarnir hefðu stýrt verðinu. Tiltrú manna á hlutabréfamarkaðnum hefði beðið mikinn hnekki, auk þess sem líta þyrfti til tjóns fjárfesta.

Allir bankarnir rannsakaðir

Fjármálaeftirlitið kærði á sínum tíma meinta markaðsmisnotkun allra gömlu bankanna þriggja, í viðskiptum með eigin hlutabréf, til sérstaks saksóknara. Ákært var fyrir markaðsmisnotkun í Kaupþingi á sama tíma og ákært var í máli Landsbankans. Réttarhöld yfir Kaupþingsmönnum fóru fram í héraðsdómi síðasta vor, og tóku fimm vikur. Þar taldi héraðsdómur að markaðsmisnotkun hefði verið stunduð allt tímabilið sem ákært var fyrir og féllu þungir fangelsisdómar. Þeim dómi hefur einnig verið áfrýjað til Hæstaréttar, en ekki er enn ljóst hvenær málið verður tekið fyrir. Mál Glitnis er enn til meðferðar hjá saksóknaraembættinu, og því óvíst hvort ákæra verður gefin út.

Tryggvi Aðalbjörnsson
Fréttastofa RÚV