Kongó fær aðstoð friðargæslusveita SÞ

03.03.2016 - 05:38
epa03478992 A picutre dated 30 June 2010 and made available on 20 November 2012 shows Congolese soldiers marching during an independence day celebration in Kinshasa, the Democractic Republic of the Congo. According to media reports, Congolese rebel group
Hermenn í stjórnarher Kongó.  Mynd: EPA
Sameinuðu þjóðirnar senda friðargæslusveit til Lýðstjórnarlýðveldisins Kongó á næstu dögum til aðstoðar í baráttunni gegn uppreisnarsveitum. Friðargæsla á vegum SÞ hefur ekki verið í landinu frá því í febrúar í fyrra.

Sameinuðu þjóðirnar drógu friðargæslusveit sína til baka í fyrra eftir ráðningu tveggja hershöfðingja í stjórnarher Kongó. Þeir eru báðir á lista samtakanna yfir menn sem hafa framið mannréttindabrot.

AFP fréttaveitan hefur eftir hátt settum manni innan friðargæslusveita SÞ að sveitin muni snúa aftur til Kongó á allra næstu dögum. Endurkoman var ákveðin í heimsókn Ban Ki-moons til Kinshasa, höfuðborgar landsins, í síðustu viku.

Stanslaus átök hafa verið í austurhluta Kongó síðustu tvo áratugi. Sameinuðu þjóðirnar stefna að afvopnun tuga uppreisnarsveita í landshlutanum. Barátta gegn tveimur uppreisnarsveitum verður í forgangi, annars vegar ADF frá Úganda og hins vegar frelsissveit Rúanda, FDLR. 

 

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV