Kominn aftur í kyrrðina sem hann flúði

Innlent
 · 
Kastljós
 · 
Norðurland
 · 
Menningarefni

Kominn aftur í kyrrðina sem hann flúði

Innlent
 · 
Kastljós
 · 
Norðurland
 · 
Menningarefni
15.01.2016 - 13:48.Rögnvaldur Már Helgason.Kastljós
Hún var köld og yfirveguð, ákvörðunin sem hjónin Atli og Anna Örvarsson þurftu að taka um framtíð sína eftir að hafa upplifað skotárás í sínu eigin hverfi í Santa Monica í Los Angeles árið 2013. Rætt var við þau í Kastljósi í gær.

Atli vann þar sem kvikmyndatónskáld en hann samdi meðal annars tónlistina fyrir Hrúta. Þegar enn ein skotárásin var gerð í þeirra eigin hverfi fóru þau að hugsa sér til hreyfings og komust að þeirri niðurstöðu að best væri að búa á Akureyri, þar sem Atli ólst upp, og fluttu þangað í haust.

 

Kominn aftur í kyrrðina
Atli segir það að sumu leyti einkennilegt að hann sé kominn aftur til Akureyrar, til að sækja í það sem hann þráði að komast burtu frá þegar hann var yngri; kyrrðina.

„Þú ert ungur og áhugasamur um að skoða heiminn þá er það einmitt þögnin og það að það sé lítið að gerast sem maður vill komast út úr og komast í meiri iðu og hraða og allt það. En svo er maður kominn hringinn, þá þarf maður að díla aftur við þessa tilfinningu: Heyrðu já, þetta er ástæðan fyrir því að ég fór. Og nú er þetta ástæðan fyrir því að ég er kominn aftur.“

Óvíst hvað Anna tekur sér fyrir hendur
Anna Örvarsson, eiginkona Atla, segist ekki viss um hvað hún ætli að taka sér fyrir hendur nú þegar hún er flutt til Akureyrar. Síðustu ár hefur hún unnið sem innanhússhönnuður en hyggst róa á ný mið. 

„Ég held öllum möguleikum opnum og tækifærum. Ég held að hvað sem er sem tengist mannréttindamálum sé mjög ofarlega á listanum, og svo hef ég mikinn áhuga á endurvinnslu. Svo ég er í rétta bænum,“ segir Anna.