Kolgrafafjörður laðar að ferðamenn

06.03.2014 - 21:24
Mynd með færslu
Siglt var með á annað hundrað ferðamenn um Kolgrafafjörð í gær. Fjörðurinn hefur nú gífurlegt aðdráttarafl fyrir náttúruunnendur sem koma þangað til að sjá auðugt dýralíf.

Aðdráttarafl fjarðarins má að einhverju leyti rekja til þess þegar mörg hundruð tonn af síld gengu inn í fjörðinn og drápust í fjörunni, fyrst í desember 2012 og aftur í febrúar 2013. Þá mátti sjá dauða síld um allar fjörur innan brúar í firðinum og var þar mikil grútarmengun og lyktin eftir því. Farið var í umfangsmiklar hreinsunaraðgerðir sem virðast hafa skilað árangri. En síldin hefur haldið áfram að ganga inn í fjörðinn.  

Áður komu ferðmenn á þessar slóðir aðallega til að mynda Kirkjufellið. En núna er Kolgrafafjörður og dýralífið þar helsta aðdráttaraflið, ekki síst háhyrningarnir.

Gísli Ólafsson, hótelstjóri á Hótel Framnesi, segir að þegar síldin hafi byrjað að ganga inn þá hafi ferðamenn farið að sýna áhuga á háhyrningum sem hafi verið í firðinum, nú séu þeir í hundruðum. „Og það má eiginlega segja það að það hafi bara fyllst hjá okkur. Það er meira að gera orðið á veturna heldur en á sumrin hjá okkur. Í febrúar og mars er hótelið fullt og við erum að fara með yfir hundrað manns í siglingar á dag stundum,“ segir Gísli.

Kolgrafafjörður er núna paradís þeirra sem hafa áhuga á fuglum og sjávarspendýrum. Þar má sjá háhyrninga, höfrunga, seli og tugþúsundir fugla af hátt í fjörutíu tegundum.  Einnig er farið með ferðamenn í bílum og rútum í Kolgrafafjörð en ekki er gert ráð fyrir því að bílar stoppi á brúnni. Því hefur skapast hætta þegar rútur fullar af ferðamönnum hleypa þeim út til að skoða dýralífið.

Það eru líka breyttir tímar á Eiði í Kolgrafafirði þar sem síldin lá dauð í fjörunni fyrir neðan bæinn. „Okkur datt í hug að fá nokkra túrista heim á hlað til okkar og sýna þeim fjöruna hvað hún er hrein og fín og allt aðrar aðstæður en í fyrra,“ segir Guðrún Lilja Arnórsdóttir bóndi á Eiði. „Þetta er nú svo sem  bara að byrja hjá okkur og maður veit ekkert hvernig þetta endar. Svo gæti síldin tekið upp á því á næsta ári að hverfa og hvalurinn líka og þá kemur enginn,“ segir Bjarni Sigurbjörnsson bóndi á Eiði.