Kleópatra fékk Gunnars majónes á 62 milljónir

21.01.2016 - 14:51
Mynd með færslu
 Mynd: Gunnars  -  Kleópatra Kristbjörg
Hæstiréttur hefur gert Héraðsdómi Reykjaness að taka til efnismeðferðar varakröfu þrotabús hafnfirska fyrirtækisins Gunnars Majónes vegna kaupsamnings Kleópötru Kristbjargar, núverandi framkvæmdastjóra, á öllum eignum félagsins. Kleópatra var framkvæmdastjóri og stjórnarmaður í Gunnars Majónesi þegar það var lýst gjaldþrota en líka stjórnarformaður og eini eigandi nýja félagsins sem keypti allar eignir fyrirtækisins sögufræga fyrir tæpum tveimur árum.

Héraðsdómur Reykjaness hafði áður vísað stefnu skiptastjórans frá en Hæstiréttur telur að taka beri bæði varakröfu og þrautavarakröfu hans til efnismeðferðar.

Í varakröfunni er þess krafist að kaupsamningi verði rift og að Kleópötru og fyrirtæki hennar verði gert að afhenda eignir, vörumerki og allar uppskriftir sem þarf til að framleiða vörur „Gunnars Majónes“  gegn afhendingu skuldabréfs sem notað var til að greiða fyrir fyrirtækið.

Skiptastjórinn krefst þess einnig að nýja félaginu og Kleópötru verði gert að greiða þrotabúinu 13,7 milljónir. Í þrautavarakröfu skiptastjórans er þess krafist að kaupsamningi verði rift og að nýja félaginu og Kleópötru verði gert að greiða þrotabúinu 173 milljónir.

Gunnars Majónes var úrskurðað gjaldþrota í júní 2014 og námu lýstar kröfur 183 milljónum. Félagið hefur verið starfrækt frá árinu 1960  - það framleiðir hið margrómaða majónes ásamt sósum af ýmsu tagi. 

Í stefnu skiptastjórans er aðdragandinn rakinn að því hvernig staðið var að sölu Gunnars Majónes til félags í eigu Kleópötru. Hún hafði verið framkvæmdastjóri Gunnars Majónes frá árinu 2006 en nýtt félag í hennar eigu keypti fyrirtækið eftir stjórnarfund í mars 2014. Þá var verulega farið að halla undan rekstri þess. Með í kaupunum fylgdu allar uppskriftir, skrifstofubúnaður, heimasíða og markaðsefni svo fátt eitt sé nefnt.  

Fyrir þetta greiddi félag Kleópötru 62,5 milljónir, að því er fram kemur í stefnu skiptastjórans.  Gunnars ehf greiddi það með útgáfu á skuldabréfi til tíu ára. Nýja félagið heitir Gunnars ehf. - Kleópatra er samkvæmt ársreikningi eini eigandi félagsins og er einnig skráður framkvæmdastjóri þess. 

Samkvæmt ársreikningi Gunnars ehf., sem skilað var í október á síðasta ári, nam hagnaður af rekstri félagsins fyrir árið 2014 rúmum 34 milljónum. Eignir félagsins voru metnar á tæpar 148 milljónir. Samkvæmt ársreikningi fyrir árið 2011 var hagnaður gamla félagsins 11 milljónir og eigið fé þess neikvætt um 55,5 milljónir.