Kjósa um verkfall í tónlistarskólum

05.10.2014 - 16:02
Mynd með færslu
Tónlistarskólakennarar greiða nú atkvæði um verkfallsboðun. Formaður stéttarfélags þeirra er ósáttur við að þeim séu boðin laun sem önnur kennarafélög hafi þegar hafnað.

Atkvæðagreiðsla Félags tónlistarskólakennara um verkfallsboðun hófst fyrir helgi og lýkur á morgun. Verði hún samþykkt og náist ekki samningar hefst verkfall 22. október. Það er sami mánaðardagur og síðast þegar tónlistarskólakennarar fóru í verkfall, árið 2001.

Sigrún Grendal, formaður Félags tónlistarskólakennara, segir að krafan sé að tónlistarskólakennarar fái sambærileg laun við aðra kennara. Það sé ekki ásættanlegt að kennurum sé mismunað eftir formi skólanna sem þeir vinna við. Nú hafi kjarasamningar staðið yfir í tíu mánuði. Sigrún furðar sig á því að samninganefnd sveitarfélaga hafi boðið tónlistarskólakennurum sömu kjör og öll önnur félög kennara hafi hafnað. „Og það að ætla nú að bjóða okkur samning sem myndi þýða 30 til 40 prósenta lægri laun en kollegar okkar sem við störfum við hliðina á er ekki boðlegt.“

Sigrún segir tónlistarskólakennara hafa dregist aftur úr þegar gengið var frá síðustu samningum. Þá sömdu aðrir kennarar rétt fyrir hrun en þeirra samningur rann ekki út fyrr en eftir hrun. Það hafi haft áhrif við gerð þeirra kjarasamninga.