Kínverjar koma skotpöllum fyrir á eyju

17.02.2016 - 04:06
epa04998024 (FILE) A file picture dated 11 May 2015 shows an areal view of alleged artificial islands built by China in disputed waters in the South China Sea, west of Palawan, Philippines. A United States Navy warship entered disputed waters in the South
 Mynd: EPA  -  EPA FILES
Samkvæmt gervihnattamyndum eru Kínverjar búnir að koma fyrir tveimur skotpöllum fyrir flugskeyti á eyju í Suður-Kínahafi. Mikil spenna hefur ríkt vegna umsvifa Kínverja á eyjunni, en Taívan gera einnig tilkall til eyjarinnar.

Tveir skotpallar, fyrir átta flugskeyti hvor, eru komnir upp á Woody-eyju miðað við myndirnar sem fyrst voru birtar á bandarísku fréttastöðinni Fox News. Einnig er búið að koma upp ratsjárkerfi á eyjunni. Myndirnar voru teknar 14. febrúar, en myndir frá 3. febrúar sýna sama svæði tómt. Talið er að um loftvarnaflugskeyti sé að ræða og ratsjáin tengist þannig flugskeytakerfinu.

Fréttastofa Reuters hefur eftir taívanska hershöfðingjanum David Lo að þarlend stjórnvöld fylgist grannt með gangi mála. Hann leggur áherslu á að þau ríki sem eigi hlut að máli vinni saman að því að stuðla að friði og stöðugleika í Suður-Kínahafi og engar einhliða ákvarðanir verði teknar sem skapi aukna spennu.

Breska dagblaðið Guardian leitaði viðbragða frá bandaríska varnarmálaráðuneytinu. Í yfirlýsingu ráðuneytisins segir að náið sé fylgst með málinu. Bandaríkin geri kröfu um að allir hlutaðeigandi hætti uppbyggingu og hervæðingu á eyjunni og annars staðar á Suður-Kínahafi. Auk Kína og Taívans gera Víetnamar tilkall til eyjarinnar.