Kennaraverkfalli að ljúka

04.04.2014 - 12:51
Mynd með færslu
Útlit er fyrir að kennsla í framhaldsskólum hefjist aftur á mánudag. Fastlega er búist við að skrifað verði undir nýjan og talsvert breyttan kjarasamning framhaldsskólakennara í dag og verkfalli frestað.

Nú þegar verkfall framhaldsskólakennara hefur staðið í tæpar þrjár vikur hafa samninganefndir kennara og ríkisins komist að samkomulagi sem samninganefnd kennara telur að félagsmenn geti sætt sig við. Aðalheiður Steingrímsdóttir, formaður samninganefndarinnar, er í það minnsta bjartsýn og segir að samninganefndin geti mælt með tillögunum sem liggja fyrir: "Ég á ekki von á öðru miðað við hvernig við lukum málum seinni partinn í gær að hægt verði að klára þetta í dag."

Um 70 fulltrúar kennara hafa verið boðaðir á fund í verkfallsmiðstöð framhaldsskólakennara klukkan eitt. Þar verða tillögurnar kynntar fundarmönnum. Leið samninganefndarinnar liggur svo til ríkissáttasemjara, þar sem fastlega er gert ráð fyrir að nýr samningur verði undirritaður. Heimildir fréttastofu herma að í samningnum felist talsverðar breytingar frá því sem nú er. Samningurinn gildi til haustsins 2016.  Náist samkomulag í dag, er eftir að ákveða hvernig kennslu verður háttað í framhaldsskólum það sem eftir er annarinnar. 15 kennsludagar hafa fallið niður og bæta þarf um 20 þúsund nemendum það upp. Í fyrri verkföllum hefur til að mynda verið kennt á laugardögum og í dymbilviku. Hefð er fyrir því frá fyrri kennaraverkföllum að samkomulag um fyrirkomulag kennslu út önnina sé gert samhliða kjarasamningi. Því verður væntanlega ljóst undir kvöld við hverju nemendur mega búast á næstu vikum.