Kardínáli neitar sök í kynferðisbrotamáli

26.07.2017 - 03:57
epa06109729 Australian Cardinal George Pell, escorted by police officers and followed by his lawyers, Robert Richter and Paul Galbally, departs the Melbourne Magistrates Court in Melbourne, Victoria, Australia, 26 July 2017. Australia's most senior
 Mynd: EPA  -  AAP
George Pell, kardínáli og fjármálastjóri Páfagarðs, neitar allri sök í kynferðisbrotamáli sem sótt er gegn honum í heimalandi hans, Ástralíu. Pell, sem er einn nánasti samstarfsmaður og ráðgjafi Frans páfa I., flaug til Ástralíu fyrr í þessum mánuði vegna réttarhaldanna yfir honum, sem voru sett formlega á miðvikudagsmorgun á stuttum fundi. Hann er sakaður um fjölda kynferðisbrota gegn börnum á árum áður, þegar hann starfaði enn sem prestur í Ástralíu.

Málið hefur vakið gríðarlega athygli í Ástralíu, enda Pell áhrifamesti, ástralski kennimaðurinn innan kaþólsku kirkjunnar í dag. Hann er 76 ára gamall og er af fróðum mönnum talinn þriðji valdamesti maðurinn í Vatikaninu. Fjöldi fólks safnaðist saman utan við dómshúsið í morgun, þar á meðal fjölmargir fréttamenn og stór hópur yfirlýsts stuðningsfólks kardínálans. Á annan tug lögreglumanna fylgdu sakborningnum inn og út úr dómshúsinu til að greiða honum leiðina og verja hann gegn mögulegum aðsúgi mótmælenda, en allt fór þó friðsamlega fram. 

Lögmaður Pells tilkynnti að kardínálinn hygðist lýsa sig saklausan af öllum ákærum, hér eftir sem hingað til. Saksóknarar hafa nú tíma til 8. september til að safna saman og leggja fram sönnunargögn sín í málinu, en aðalmeðferð hefst mánuði síðar.    
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV