Jólakort fór fyrir mistök til Mongólíu

17.02.2016 - 14:13
Mynd með færslu
 Mynd: Sabine Leskopf  -  Facebook
Jólakort sem átti að berast á heimili í Langholtshverfi í Reykjavík fyrir jól hafði viðkomu í Mongólíu áður en það náði á áfangastað í gær. Sabine Leskopf, skjalaþýðandi, varaborgarfulltrúi og viðtakandi kortsins, birti í gærkvöld mynd af umslaginu á Facebook síðu sinni.

„Kortið er frá vini mínum frá Mexíkó sem vann lengi með mér í Alþjóðahúsinu. Hann er íslenskur ríkisborgari en er núna fluttur til Noregs,“ segir Sabine. Þegar vinur hennar sendi henni kortið var hann hinsvegar búsettur í Kína, þar sem hann ferðaðist víða. 

Kortið sendi hann til Sabine frá Guangzhou, sem er fyrir norðan Hong Kong. Erfitt er að segja til um hversvegna jólakortið endaði í Mongólíu af öllum stöðum og líklega fást aldrei skýringar á því. Sabine hefur þó gaman af þessu og hefur fengið góð viðbrögð á Facebook.

„Ég á eina mongólska vinkonu hér og hún varð svolítið forvitin um þetta,“ segir Sabine. Þá hafa fleiri deilt með henni sögum um sambærilegan rugling. „Ekki er óalgengt til dæmis að ruglast á Íslandi og Ísrael eða Írlandi.“   

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV