Jökulflóð beggja vegna Gígjökuls

14.04.2010 - 08:49
Mynd með færslu
Vatnshæðin við Gígjökul hefur aukist gríðarlega það sem af er nótt og morgni. Áður en óróinn byrjaði var vatnshæðin 75 sentímetrar, en nú er hún komin vel yfir tvo metra. Ekkert lát virðist vera á vextinum.

Flugvél Landhelgisgæslunnar TF Sif er á flugi við Eyjafjallajökul með jarðvísindamenn og fréttamenn. Þeir eru í sambandi við stjórnstöð Almannavarna. Staðfest er að það er jökulflóð beggja vegna Gígjökuls og það hækkar í lóninu framan við skriðjökulinn enda rennur meira í lónið en úr því og vatnið er dökkt. Samt sem áður er rennslið ekki orðið jafn mikið og það verður mest á vorin. Skyggni er mjög takmarkað á svæðinu. En þeir sáu gosmökkinn eða strókinn sem nær um 12 til 14 þúsund fet upp í loft og hann virðist koma úr hábungunni.

Ekki hefur sést til eldgossins úr flugvélinni sem hefur tækjabúnað sem sér í gegnum ský. Skyggni er mjög takmarkað á svæðinu.

Jarðeldurinn hefur brætt sig upp gegnum ísinn við topp jökulsins.  Þar er hringlaga íslaust svæði, um 200 metrar í þvermál.

Vatnsrennsli  hefur aukist í Markarfljóti við gömlu Markarfljótsbrúnna og hefur vatnsyfirborð hækkað um 84 cm á skömmum tíma.  Gunnar Guðmundsson, jarðeðlisfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir enn ekki vitað hvar eldstöðin er. Nú þegar vatn sé farið að renna undan Gígjökli, bendi allt til þess að gosið sé undir toppgígnum. Vatnavextir undan Gígjökli hafði aukist úr 75 í 150 cm milli klukkan sjö og átta í morgun.   Hlusta

Lokað hefur verið fyrir umferð um Suðurlandsveg milli Skóga og vegamóta að Gunnarsholti rétt austan við Hellu.