Jóhann tilnefndur til Bafta annað árið í röð

08.01.2016 - 09:19
epa04556291 Icelandic composer Johann Johannsson poses in the press room with his award for Best Original Score for 'The Theory of Everything' during the 72nd Annual Golden Globe Awards at the Beverly Hilton Hotel, in Beverly Hills, California,
 Mynd: EPA
Jóhann Jóhannsson hefur verið tilnefndur til Bafta-verðlauna annað árið í röð - nú fyrir tónlist sína við kvikmyndina Sicario. Tónlist Jóhanns hefur hlotið mikið lof og það vakti athygli þegar Samtök erlendra fréttamanna tilnefndi tónlistina ekki. Jóhann etur kappi við tvö af þekktustu tónskáldum kvikmyndasögunnar - Ennio Morricone og John Williams.

Tilnefningarnar voru tilkynntar í morgun. Jóhann var tilnefndur í fyrra til Bafta, Óskarsverðlauna og Golden Globe fyrir tónlist sína við kvikmyndina Theory of Everything.  Hann hlaut þau síðarnefndu - fyrstur Íslendinga.

Tónlist Jóhanns við Sicario hefur fengið mikla athygli - hún leikur stórt hlutverk í myndinni sem fjallar um stríðið gegn fíkniefnum í Mexíkó. Josh Brolin, einn af aðalleikurum hennar, sagði í viðtali við kvikmyndasíðuna Rotten Tomatoes að tónlist Jóhanns væri ótrúleg. „Hún er í mínum huga einhver besta tónlist sem ég hef nokkurn tíma heyrt í nokkurri mynd,“

Kvikmyndirnar Bridge of Spies eftir Steven Spielberg og Carol með Cate Blanchett í aðalhlutverki eru með flestar tilnefningar eða níu. Athygli vekur að enginn leikari úr kvikmyndinni Spotlight fær tilnefningu - henni hefur þó verið spáð töluverðri velgengni á verðlaunahátíðum vestanhafs.

Kvikmyndin The Revenant eftir Alejandro González Iñárritu hlaut átta tilnefningar. Því hefur verið spáð að hún bindi enda á Óskarsþurrð Leonardo DiCaprio sem leikur aðalhlutverkið í myndinni.  DiCaprio hefur verið tilnefndur fimm sinnum til þeirra verðlauna en aldrei fengið.

Annað sem vekur athygli er að nýjasta kvikmynd Jennifer Lawrence, Joy, fær enga tilnefningu. Lawrence og leikstjóri myndarinnar, David O. Russell, hafa verið í miklu uppáhaldi á verðlaunahátíðum á borð við Bafta.

Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV