Jarðskjálftarnir höfðu áhrif á tónlistina

Rás 2
 · 
Tónlist
 · 
Menningarefni

Jarðskjálftarnir höfðu áhrif á tónlistina

Rás 2
 · 
Tónlist
 · 
Menningarefni
02.08.2016 - 11:22.Tómas Valgeirsson
Tónlistarkonan og textahöfundurinn Hera Hjartardóttir kom í heimsókn til Huldu Geirsdóttur og Ásgeirs Eyþórssonar á Rás 2 á frídegi verslunarmanna. Hún gerir út frá Nýja-Sjálandi og frumflutti glænýtt lag, Pulling the Anchor, í beinni útsendingu úr hljóðverinu.

Hera er á fullu um þessar mundir að vinna með áströlsku fyrirtæki að þremur heimildarmyndum. Ein segir frá íslenskum konum sem hafa unnið á sjó, önnur er um Ísland og hin ýmsu kennileiti og sú þriðja fjallar um Heru, líf hennar og tónlist. Hennar bíður veigamikið ferðalag með tökuliði meðan á heimsókn hennar stendur.

Gat í borginni

Hera segir tónlistarlífið á Nýja-Sjálandi öflugt og alls ekki ólíkt því íslenska, hvað stemningu varðar og ekki síður útitónleika á sumrin.

„Mikið af þekktu tónlistinni þar á uppeldi í Christchurch, bænum sem ég bý í,“ segir Hera, en aðspurð um hvernig samfélagið í bænum hafi náð að jafna sig á jarðskjálftunum sem urðu fyrir fimm árum síðan segir hún að þetta sé enn mjög hægt og rólega að koma sér í gang. „Við töpuðum 80% af miðborginni og fóru heilmikið af húsum,“ segir Hera. „Ef maður sér þetta á loftmynd hvað var fyrir og hvernig þetta er eftir er alveg svakalegur munur. Þess vegna er svolítið spennandi þegar það opnar nýr staður eða veitingahús. Það er ennþá svolítið gat í borginni.“

Hera segir jarðskjálftana hafa haft mikil áhrif á sköpun sína og tónverk. „Ég spilaði mikið sóló fyrir skjálftana og eftir jarðskjálftana komum við saman stór hópur af tónlistarmönnum og fórum að vinna saman eftir þetta, að finna nýja staði og nýjar leiðir til að vera tónlistarmaður í Christchurch.“ Stofnaði hún stuttu síðar fyrirtæki sem snýst um að halda borginni listamannavænni.

Hlusta má á viðtalið við Heru í heild sinni að ofan.