Jafnréttisstofa undirmönnuð

15.11.2012 - 20:15
Mynd með færslu
Fjárskortur hamlar því að Jafnréttisstofa geti sinnt lögbundnum verkefnum sínum. Niðurskurður síðustu ára hefur komið illa við stofnunina sem glímir við undirmönnun um leið og verkefnum fjölgar.

Niðurskurður síðustu ára hefur valdið því að Jafnréttisstofa nær ekki að sinna nema broti af þeim verkefnum sem hún ætti að sinna. Starfsmönnum hefur fækkað um 25% og fyrir jafn litla stofnun hefur það mikið að segja.

Kristín Ástgeirsdóttir, framkvæmdastýra Jafnréttisstofu, segir að það hafi verið sett ný lög árið 2008 þar sem mörgum nýjum verkefnum hafi verið bætt við. Það hafi líka komið nýtt fjármagn en það sé allt saman farið á þeim árum sem liðin séu frá hruninu þannig að þetta hafi komið mjög illa við stofnunina.

Ísland er nú í efsta sæti úttektar Alþjóðaefnahagsráðsins á jafnrétti kynjanna, fjórða árið í röð. Kristín segir að það sé vissulega ánægjulegur árangur en það krefjist vinnu að halda landinu á þessum stað - sem aftur kosti peninga. Stofnunin borgi til að mynda allt of háa húsaleigu í rannsóknarhúsinu Borgum á Akureyri sem nýtast myndi betur í aðkallandi verkefni. Kristín segir að stofnunin fái núna 64,7 milljónir frá
ríkinu, þar af fari 10 milljónir í húsaleigu, og það séu bara 2 stöðugildi.

Eins sé stofnuninni skylt að afla sértekna upp á 20 milljónir samkvæmt fjárlögum næsta árs. Það bindi hendur starfsmanna töluvert sem eru uppteknir við að uppfylla kröfur alþjóðlegra styrktarverkefna, en á meðan sitji önnur verkefni á hakanum, t.d. mál er tengjast vinnumarkaðinum.  Kristín segir að það hafi sem dæmi mikið værið rætt um launamisrétti í samfélaginu og það sé auðvitað eitt af því sem stofnunin ætti að vera að sinna en hafi mjög lítið getað það.