Íþróttadóp, Samferða og tölvuöryggi

09.03.2016 - 18:02
Mynd með færslu
 Mynd: SNTV
Rússneska tennisstjarnan Maria Sharapova tilkynnti á blaðamannafundi í vikunni að hún hafi fallið á lyfjaprófi vegna lyfsins meldonium, sem hún hefur að eigin sögn tekið í 10 ár. Alþjóðalyfjaeftirlitsstofnunin gerði lyfið ólöglegt frá og með áramótum en Sharapova segist ekki hafa vitað það og einfaldlega treyst læknum sínum. Heiðarleg mistök eða ekki - þar liggur efinn. Birgir Sverrisson starfsmaður Lyfjaeftirlitsnefndar ÍSÍ fór yfir málið.

 

George Martin upptökustjóri Bítlanna er látinn. Martin var oft kallaður fimmti bítillinn eins og flestir vita og er sagður hafa haft mikil áhrif á hvernig hljómsveitin þróaðist. Margir hafa minnst Martins í dag, Paul McCartney sagði til dæmis að hann hafi verið honum eins og annar faðir. Hann hafi verið örlátasti, greindasti og músíkalskasti maður sem hann hafi kynnst á ævinni. Karl Olgeirsson, tónlistarmaður sagði frá ýmsu sem Martin lagði til málanna með Bítlunum.

Thelma Björk Hlynsdóttir hreppti silfrið í keppninni Þjónn Norðurlandanna sem fram fór á dögunum. Þetta er mjög hörð, fjölbreytt og löng keppni - stendur yfir í heilan dag. Thelma Björk var á línunni - hún er búsett í Helsinki þar sem hún vinnur á Michelin staðnum Olo.

Það er alltaf verið að benda okkur á að passa upp á tölvurnar okkar og símana. Til dæmis að vera meðvituð um að hægt sé að opna fyrir myndavélarnar á þessum græjum. Alls kyns rusl getur líka tekið tölvurnar okkar yfir og notað þær í misjöfnum tilgangi. Nú er mikið talað um það sem er kallað ransomware upp á ensku - það er hugbúnaður sem tekur gögnin eiganda í gíslingu og læsir þeim. Eina leiðin til að fá gögni aftur er svo að borga - oftast með bitcoin. Þá fær maður kóða sem opnar gögnin aftur. Björn Símonarson hjá tölvuöryggisfyrirtækinu Syndis er sérfræðingur í þessum málum.

Hópur tónlistarmanna hefur tekið sig til og tekið upp nýja útgáfu af laginu Samferða eftir Magnús Eiríksson. Þau gerðu þetta til að vekja fólk til umhugsunar um mikilvægi góðs heilbrigðiskerfis - í tengslum við undirskriftasöfnina á endurreisn.is. Þar hafa núna safnast meira en 80 þúsund undirskriftir. Sem er met í söfnun undirskrifta. Ellen Kristjánsdóttir og Guðmundur Óskar Guðmundsson sögðu frá.

Arnar Eggert Thoroddsen fór svo yfir helstu tónlistarfréttir. Meðal annars norrænu tónlistarverðlaunin, nýja plötu Kendrick Lamar og deilur gömlu félaganna Crosby og Nash.

 

Mynd með færslu
Guðmundur Pálsson
dagskrárgerðarmaður
Síðdegisútvarpið
Þessi þáttur er í hlaðvarpi