Ítalir rannsaka umdeildan barkaskurðlækni

08.02.2016 - 22:19
Mynd með færslu
 Mynd: SVT
Lögregluyfirvöld í Flórens á Ítalíu hafa opnað að nýju sakamálarannsókn á hendur barkaskurðlækninum Paulo Macchiarini. Hann er sakaður um að hafa þegið fé fyrir að taka sjúklinga fram fyrir biðlista.

Macchiarini starfaði á sjúkrahúsinu í Flórens áður en hann var ráðinn til Karólínska sjúkrahússins í Stokkhólmi, þar sem hann græddi plastbarka í fólk, án þess að prófa aðferðina fyrst á dýrum. Málið teygir anga sína til Íslands, en fyrsti plastbarkaþeginn kom frá Íslandi og íslenskur læknir tók þátt í þeirri aðgerð.

Ítölsk stjórnvöld hafa farið fram á að fyrri barkaígræðslur Macchiarinis, þar sem hann þótti brjóta blað með því að græða mannsbarka baðaðan stofnfrumum í sjúklinga, verði rannsakaðar og kannað hvort fullnægjandi prófanir hafi legið fyrir.

Macchiarini gerði fimm barkaígræðslur úr gjafalíffærum í Flórens, þrír sjúklinganna eru látnir, einum er haldið sofandi í öndunarvél en ekki er vitað um afdrif þess fimmta.

Handtekinn 2012 á Ítalíu

Macchiarini var handtekinn í Flórens 2012 vegna gruns um að hann, ásamt samstarfmönnum sínum, hafi tekið sjúklinga fram fyrir biðlista gegn greiðslu, en rannsókn málsins var aldrei lokið. Á sama tíma hélt Macchiarini áfram að framkvæma plastbarkaígræðslur, í Svíþjóð, Bandaríkjunum og Rússlandi. 

Þá greina bandarískir miðlar frá því að plastbarkaaðgerð Macchiarinis á tveggja ára stúlku í Illinois árið 2013 verði tekin til gagngerrar skoðunar. Stúlkan lést skömmu eftir aðgerðina.