Íslenskir notendur finna fyrir lokunum Netflix

29.02.2016 - 17:19
epa05090583 (FILE) A file picture dated 15 September 214 of the French Netflix webpage displayed on a computer screen in Paris, France. Video streamer Netflix on 06 January 2016 went live around the world, adding 130 new countries to its service and
 Mynd: EPA
Netflix reynir nú að sporna við áskrift að sjónvarpsveitunni í gegnum krókaleiðir og hefur hluti íslenskra áskrifenda fundið fyrir því. Samkvæmt könnun MMR sem gerð var 2015 var 18,4% heimila á Íslandi með áskrift, áður en Netflix varð formlega aðgengilegt hér þann 6.janúar 2016.

Þeir áskrifendur, sem ekki eru með formlega íslenska áskrift, þurfa að notast við proxy-þjóna, VPN-net eða streymimiðlanir eins og Playmo.TV. Búið er að loka á þó nokkrar af þeim leiðum sem í boði eru en aðrar standa enn opnar. Þar á meðal Playmo.TV.

Ekki eru allir sem kæra sig um að vera með áskrift sem er eyrnamerkt viðkomandi landi. Ástæðan er sú að misjafnt er hvaða efni er aðgengilegt eftir löndum. Ísland er ekki ofarlega á þeim lista. Hér er aðeins aðgengilegt 1/6 af því efni sem er í boði í Bandaríkjunum.

Der Spiegel fjallar um málið en lokað hefur verið á krókaleiðir í Þýskalandi að undanförnu. Sömu sögu er að segja í Ástralíu og fjölmörgum öðrum löndum enda yfirlýst markmið Netflix að binda enda áskriftaleiðir sem þessar. Það gæti þó reynst þrautinni þyngra.