Íslenskir feður í bestu sambandi við börn sín

14.03.2016 - 21:22
Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot RÚV
Alþjóðleg samanburðarrannsókn sýnir að íslensk börn eiga best samskipti við feður sína. Ársæll Arnarsson, prófessor í sálfræði við Háskólann á Akureyri, telur að aukinn réttur íslenskra feðra til foreldraorlofs hafi þarna áhrif.

Skýrsla um alþjóðlegu rannsóknina Heilsa og lífskjör skólabarna kemur út í dag. Hún er unnin á vegum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar og nær til 220 þúsund barna á aldrinum ellefu, þrettán og fimmtán ára í 42 löndum í Evrópu og Norður Ameríku.

Háskólinn á Akureyri hefur lagt spurningalista fyrir um tólf þúsund íslensk börn fjórða hvert ár frá aldamótum. Í þetta sinn reyndust íslensk ungmenni af báðum kynjum og í öllum þremur aldurshópunum meta samskipti sín við feður jákvæðari en börn í öðrum löndum.  Ársæll segir niðurstöðuna sérstaka. „Það er mjög sérstakt að fá hjá báðum kynjum og í öllum þremur aldurshópunum sem við erum að skoða að íslenskir feður séu með bestu samskiptin við börnin sín. Þetta er ekki eitthvað sem maður sér svona stöðugt í svona stórum rannsóknum með svona mörgum þátttökulöndum. Maður sér yfirleitt ekki svona afgerandi mun. Þannig að þetta er auðvitað mjög sérstakt.“

Þrátt fyrir góða útkomu íslenskra feðra eru þeir, samkvæmt rannsókninni, ekki í eins góðum samskiptum við börnin sín og íslensku mæðurnar sem lenda í fjórða sæti á heimslistanum hjá báðum kynjum í aldurshópunum þremur. 

Árgangarnir sem rannsóknin nær til nú eru fyrstu árgangarnir sem nutu góðs af breytingu á foreldraorlofi sem jók rétt feðra. Ársæll telur að áhrifin komi skýrt fram í niðurstöðum rannsóknarinnar.  „Ég held að tilkoma feðraorlofsins hafi aukið þátttöku feðra í uppeldi barna sinna til mikilla muna. Þetta er auðvitað frábær árangur og við eigum að vera mjög stolt af því.“

 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV