Íslenska kennd við 100 háskóla

08.11.2011 - 16:52
Mynd með færslu
Vaxandi áhugi er á íslenskri menningu erlendis ef marka má fjölda þeirra háskóla sem kenna íslensku. Hún er kennd við 100 háskóla og ekki bara forníslenska og fornbókmenntir heldur er nútímaíslenska kennd við 40 erlenda háskóla. Auk þess eru 85.000 manns skráðir á vefnámskeiðið Icelandic Online.

Skólarnir hundrað eru í 25 löndum og eru flestir þeirra í Norður Ameríku og Norður Evrópu. Nútíma íslenska er kennd í Kanada, á Norðurlöndunum, Þýskalandi, Póllandi, Rússlandi, Japan, Kína og víðar.  Menntamálaráðuneytið og stofnun Árna Magnússonar styrkja kennslu í 16 skólum. 

Íslenska er kennd í háskólum í eftirfarandi löndum:  

Svíþjóð,  Noregur, Danmörk, Finnland, Færeyjar, Litháen,
Eistland, England, Skotland, Frakkland, Holland, Þýskaland,
Pólland, Austurríki, Tékkland, Sviss, Italía, Rússland, Krótatía,
Búlgaría ‚ Japan, Bandaríkin, Kanada, Ástralía, Nýja Sjáland

 

Fyrir tuttugu árum var algengast að fólk lærði íslensku vegna áhuga þess á fornmáli og fornbókmenntum.  Þeir sem eru að læra nútímaíslensku  eru hins vegar áhugamenn um Ísland nútímans.

Úlfar Bragason hjá Alþjóðasviði stofnunar Árna Magnússonar:  „íslensk nútímamenning er orðin svo miklu betur þekkt en áður ekki síst vegna áhuga ungmenna á íslenskri nútímatónlist, sérstaklega tónlist eins og Bjarkar og það skilar sér í því að þau vilja læra meira um ísland og þá líka Íslensku“

 

„Ég var í Japan fyrir þremur árum og byrjaði að tala um Björk og Sigurrós og hvort þau hefðu áhuga á því.  Það voru þarna hundrað manns að hlusta á mig.  En ég fylgdist greinilega sjálfur ekki nógu vel með í tónlistinni því þau fóru að nefna allskonar hljómsveitir sem ég hafði aldrei heyrt.  Þau bara eru á vefnum og hlusta á þetta og fara svo að hugsa „hverskonar fólk er þetta sem framleiðir svona músík“

Áttatíu og fimm þúsund manns eru skráðir á vefnámskeiðið Icelandic Online.  Fólkið er dreift um allan heim en hluti þess er búsettur hér á landi.   Icelandic Online

„Kona sem vann með mér var í Tælandi á ferðalagi og þjónn spurði hana hvaðan hún væri.   Hún sagðist vera frá Íslandi og þá fór hann að tala við hana á íslensku.   Hún sagði; bíddu nú við hefur þú verið á Íslandi ?, nei ég er að læra Icelandic Online“