Íslendingar þriðju hamingjusamastir í heimi

20.03.2017 - 06:45
Mynd með færslu
 Mynd: itimes.com
Íslendingar eru þriðja hamingjusamasta þjóð í heimi annað árið í röð samkvæmt mælingum Sameinuðu þjóðanna. Norðmenn eru allra þjóða hamingjusamastir, hækka upp um þrjú sæti, og Danir, sem voru hamingjusamastir í fyrra, fylgja í humátt á eftir. Skýrslan kom út í dag í tilefni alþjóðadags hamingjunnar.

Evrópuþjóðir fylla sex efstu sætin, á eftir Íslandi koma Svisslendingar, Finnar og Hollendingar. Kanada er í sjöunda sæti, Ný-Sjálendingar eru í áttunda sæti og þá eru Ástralir og Svíar jafnir í því níunda. Minnst er hamingjan í Afríkuríkjunum Mið-Afríkulýðveldinu, Búrúndí og Tansaníu. 

Sjö þættir eru notaðir til að ákvarða hamingju þjóðanna í könnun Sameinuðu þjóðanna. Það eru landsframleiðsla á hvern íbúa með tilliti til kaupmáttar, lífslíkur við fæðingu, félagslegur stuðningur, ákvarðanafrelsi, örlæti og hvort spilling ríkir í landinu. Sjöundi og síðasti þátturinn er svo ákvarðaður út frá svörum þátttakenda í fyrstu sex þáttunum.

Svo litlu munar meðal efstu þriggja þjóðanna að niðurstöðurnar eru innan 95 prósent skekkjumarka.  

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV